146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

umhverfisáhrif og sjálfbærni byggingariðnaðar.

279. mál
[16:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir umræðuna og svör ráðherrans. Það sem ég tek með mér út úr þessari umræðu er að það er spurning að við endurskilgreinum á Íslandi hvað við eigum við með gæði. Hér hefur oft komið fram í umræðunni að við teljum að gæði felist í því að hafa sem flesta fermetra á einstakling, að við notum sem dýrust efni og helst aðflutt, langt að komin, til þess að sýna gæðin hjá okkur og hversu mikla peninga við höfum til að setja í húsnæðið okkar.

Ég tek líka undir með ráðherranum um það sem hún segir varðandi mikilvæga fræðslu. Ég held að það sé einkar mikilvægt að undirstofnanir hennar og hún sjálf beiti sér fyrir aukinni fræðslu þegar kemur að byggingariðnaðinum sjálfum og, eins og kom líka fram, hversu mikilvægt það er að við sem búum í íbúðunum kunnum meira að fara með húsnæði okkar og gerum kröfur.

Þó að það heyri ekki undir ráðherrann vil ég hvetja hana eindregið til að skoða, eins og hún hefur svo sem tjáð sig um, mögulega skattalega hvata til þess að hugsanlega, eins og við höfum séð, breyta gjaldtöku á umhverfisvænni bíla, hvort það væri hægt að endurskoða virðisaukann á vistvænar byggingarvörur, hvort mætti skoða lægri gjaldtöku hjá sveitarfélögum á húsnæði sem er vistvottað og að lánveitendur hugi að því hvernig þeir meta þá sem ætla að leggja áherslu á umhverfismál þegar kemur að byggingum.

Við byggjum fyrst og fremst úr steypu á Íslandi og það er löngu kominn tími á að við reynum að auka fjölbreytnina hvað það varðar. Hér hefur verið talað um að búa minna, að við stöðlum, ég tek svo sannarlega undir það, að við tökum upp nýja verkferla og endurnýtum í meira mæli og að við förum alls ekki í 2007 þar sem (Forseti hringir.) menn fleygðu út heilu eldhúsinnréttingunum sem voru mjög fínar til síns brúks.