146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

búsetuskerðingar almannatrygginga.

311. mál
[16:41]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þessa fyrirspurn. Það er spurt hvort ráðherra hyggist skipa starfshóp til fara yfir þetta mál. Það er alveg ljóst að þetta er afar mikilvægt mál sem er brýnt að fara yfir. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega er tæpt á því í fimm ára ríkisfjármálaáætlun og ljóst að þarna er hópur sem býr við mjög kröpp kjör, í sumum tilfellum í það minnsta, og brýnt að horfa til þess á hvaða hátt er hægt að styðja þar betur við.

Það er þó rétt að draga fram í upphafi að við erum ekki að tala um skerðingar í því samhengi því að um er að ræða, eins og hv. þingmaður lýsti í upphafi fyrirspurnar sinnar, það fyrirkomulag að fólk ávinnur sér þessi réttindi yfir tíma og nást full réttindi miðað við 40 ára búsetu, þannig að því lengur sem fólk hefur búið hér á landi þeim mun meiri réttindi öðlast það.

Í almannatryggingakerfinu er ekki gerð krafa um íslenskan ríkisborgararétt, greiðslu skatta eða iðgjalda eða að viðkomandi hafi stundað vinnu hér áður. Þess er heldur ekki krafist að viðkomandi hafi verið við fulla heilsu þegar flutt er til landsins. Þá vil ég taka sérstaklega fram að þegar um örorkulífeyri er að ræða er tímabilið frá því viðkomandi verður örorkulífeyrisþegi og fram til 67 ára aldurs tekið með í reikninginn og getur þar með hækkað réttindahlutfallið verulega.

Það er að sjálfsögðu einnig ljóst að þeim fer fjölgandi sem ekki hafa búið nægilega lengi hér á landi, eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er kannski ekki við öðru að búast, enda hefur orðið mikil fjölgun erlendra ríkisborgara búsettra hér á landi á undanförnum árum. Þess vegna er þeim mun brýnna að horfa til þessa. Í dag er það svo að þetta eru um 746 ellilífeyrisþegar sem ekki höfðu unnið sér inn full réttindi í október 2016, u.þ.b. 2,2% af heildarfjölda ellilífeyrisþega, og nákvæmlega 973 örorkulífeyrisþegar sem ekki nutu fullra réttinda í október 2016, eða um 5,2% af heildarfjölda örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Við hljótum að vera sammála um að við sem ríki eigum að stuðla að lágmarksframfærslu og velferð þeirra sem ekki ná að sjá fyrir sér sjálfir af einhverjum ástæðum. Það má gera á ýmsan hátt hvað þennan hóp varðar. Að mínu mati er ekki endilega nauðsynlegt að gera grundvallarbreytingar á almannatryggingakerfinu hvað varðar skilyrði tryggingaverndar eða réttindaávinnslu. Það eru auðvitað fleiri þættir í velferðarkerfinu okkar en almannatryggingarnar einar sem við þurfum þá að horfa á og samspil þeirra við almannatryggingar, svo sem fjárhagsaðstoð af hálfu ríkis eða sveitarfélaga.

Þótt um sé að ræða bæði elli- og örorkulífeyrisþega hafa málefni örorkulífeyrisþega verið meira til umfjöllunar í þessu samhengi. Í sumum tilvikum erum við að glíma við það að fólk á tilkall til réttinda í heimalandi en þar eru aðrar skilgreiningar á örorku og örorkuréttindum og þótt að einstaklingi hafi verið úrskurðaðar örorkubætur hér á landi getur viðkomandi lent í því að fá synjun í heimalandi og fær þar af leiðandi ekki þær viðbætur sem hann eða hún ætti ella rétt á þaðan. Það getur þýtt að við þurfum þá að grípa til annarra úrræða til þess að bæta það upp hér.

Í áframhaldandi heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins verður bótakerfið vegna örorku til skoðunar. Það er eðlilegt að þá verði farið yfir hvaða leiðir eru færar í þeim efnum hvað varðar lífeyrisþegar sem búa hér á landi en hafa ekki áunnið sér full réttindi. Við gerum fastlega ráð fyrir því að við áframhaldandi skoðun örorkulífeyriskerfisins verði sérstaklega horft til þessa þáttar.

Hv. þingmaður spyr hvort ég hyggist láta endurskoða 3. mgr. 15. gr. reglugerðar þar sem kveðið er á um hlutfallslegan útreikning sérstakrar framfærsluuppbótar vegna fyrri búsetu. Í stuttu máli er samkvæmt lögum um félagslega aðstoð heimilt að greiða sérstaka uppbót til framfærslu til viðbótar við lífeyrinn til þeirra lífeyrisþega sem hafa heildartekjur undir tilteknu lágmarki, en í dag á sú heimild eingöngu við örorkulífeyrisþega vegna þess að við nýlegar breytingar á ellilífeyri í almannatryggingum var fjárhæð framfærsluuppbótarinnar ásamt fjárhæð tekjutryggingar bætt við ellilífeyrinn. Í því samhengi verður auðvitað að horfa til þess (Forseti hringir.) að sambærilegar breytingar eru áformaðar þegar kemur að örorkulífeyriskerfinu okkar, en þeirri endurskoðun hefur ekki verið lokið enn.