146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

ráðstafanir gegn verðhækkun íbúðarhúsnæðis.

334. mál
[16:56]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er sennilega eitt brýnasta mál sem við erum að takast á við í dag. Ég held að það sé ekkert launungarmál. Það er einfaldlega krísuástand á fasteignamarkaði sem stafar fyrst og fremst af alveg gríðarlegum skorti á húsnæði inn á markaðinn á sama tíma og við erum að ganga í gegnum mjög sterka efnahags uppsveiflu. Það er því til að svara þegar horft er til hvers konar aðgerða þarf að grípa til á markaðnum að númer eitt, tvö og þrjú er að örva framboð, því að það er alveg ljóst að fólk þarf að búa einhvers staðar. Vissulega getum við gripið til aðgerða líkt og þeirra sem gripið hefur verið til í Noregi og kann vel að vera að megi skoða hvort ástæða sé til að grípa til hér. En meginvandamál fólks er eftir sem áður að það vantar einfaldlega húsnæði inn á þennan markað. Að því snúa þær aðgerðir sem þessi ríkisstjórn hefur horft til númer eitt, tvö og þrjú.

Hvað erum við að gera til að bregðast við? Við erum að brýna sveitarfélög í að gera sameiginlegar húsnæðisáætlanir fyrir alla vega samvaxin byggðarlög þannig að þetta sé ekki eingöngu viðfangsefni hvers sveitarfélags um sig heldur þeirra í sameiningu, því að það þarf t.d. að mæta eftirspurn á höfuðborgarsvæðinu öllu en ekki einstakra sveitarfélaga. Við flytjum okkur tiltölulega hæglega milli sveitarfélaga svo að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verða að taka sameiginlega ábyrgð á því mikilvæga málefni.

Það er horft til þess hvað sé hægt að gera til að liðka fyrir nýbyggingum. Horft er til mikillar þéttingar byggðar sem aftur á móti hefur valdið töluverðum vanda í skipulagi og verið mjög tímafrekt í skipulagi. Við horfum til þess hvaða aðgerða hægt væri að grípa til til að liðka þar fyrir. Við horfum líka til þess hverju það sæti að ekki er verið að byggja litlar og tiltölulega hagkvæmar íbúðir sem þó er helst kallað eftir inn í þessa þróun. Þegar verið er að tala um þéttingu byggðar, þegar verið er að tala um hækkandi lóðaverð þá veldur það töluvert miklum áhyggjum að áhersla sveitarfélaganna í þeim efnum, þ.e. þétting og sífellt meiri gjaldtaka á lóðaverðið sjálft, valdi einmitt þeirri krísu að litlar íbúðir detta einfaldlega út af markaðnum, það er ekki hagkvæmt að byggja þær. Þar af leiðandi er þeirri eftirspurn ekki mætt, þar sem þörfin er þó brýnust.

Við sjáum áfram að byggingamarkaðurinn horfir fyrst og fremst á tiltölulega dýrt lúxusfjölbýli á sama tíma og ungt fólk kemst ekki inn á fasteignamarkaðinn. Þarna þurfa sveitarfélögin ekki hvað síst að horfa til ábyrgðar sinnar en við getum líka horft til þess hvernig er staðið að gjaldtöku fyrir lóðir.

Það eru ýmsar fleiri aðgerðir sem ríkið horfir til í sínu, t.d. hvort við getum mögulega tekið ríkisjarðir í not undir frekari þéttingu eða frekari fjölgun íbúða inn á markaðinn á þessum stutta tíma. En blessunarlega horfir þó ástandið eitthvað til betri vegar þar sem það virðist vera umtalsverður íbúðafjöldi á leið inn á markaðinn, þó svo að því miður hafi áformin ekki raungerst hingað til, alla vega ekki nægilega hratt. Vonandi verður breyting þar á.

Önnur spurningin var hvort ráðherra telji að þær miklu verðhækkanir á húsnæði sem orðið hafa að undanförnu séu til marks um fasteignabólu sem kalli þá á óhóflega skuldsetningu. Það er nokkuð auðvelt að fylgjast með því hvenær fasteignaverð fer að hækka óhóflega mikið. Við vitum einfaldlega að fasteignaverð fylgir kaupmætti og hefur alltaf gert. Það eru tvær skýribreytur sem eru hvað bestar, það er kaupmáttur og síðan raunvaxtastig. Þegar við horfum á þá tvo þætti sjáum við að hér er fasteignaverð klárlega byrjað að hækka talsvert umfram kaupmáttaraukningu og talsvert um þær breytingar á lánskjörum sem verið hafa. Það er alveg ljóst að við erum að byrja að hlaða í næstu fasteignabólu ef ekkert verður að gert.

Munurinn hér og á því ástandi sem vísað er til í Noregi og því ástandi sem við höfum áður upplifað er að enn sem komið er hafa íslensk heimili mjög lítið aukið skuldsetningu sína í því samhengi, þannig að það er ekki ástæða til þess að hafa mjög miklar áhyggjur hvað það varðar. En enn og aftur verður að tryggja nægt framboð inn á markaðinn til þess að koma í veg fyrir miklar verðhækkanir, því að þær verðhækkanir skýrast fyrst og fremst af þeim skorti sem er á markaði. Eitt meginlögmál hagfræðinnar, sem við þekkjum ákaflega vel, er að þegar það eru fleiri sem vilja kaupa en þeir sem vilja selja þá hækkar verð úr hófi.