146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

ráðstafanir gegn verðhækkun íbúðarhúsnæðis.

334. mál
[17:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta er eitt af þeim málum sem við þurfum sífellt að ræða. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir viðbótina. Ég held að hún sé allrar skoðunar verð.

Ég held að aðferð Norðmanna sé eitt af því sem eigi að vera í púkkinu. Eins og ráðherra kom inn á er auðvitað margt þess valdandi að staðan er eins og hún er. Ég verð að segja að mér finnst að við þurfum að gera meira til að draga úr stöðutökum fjárfesta á fasteignamarkaðnum, ég held að það sé mjög brýnt. Við vitum núna að Búseti er að byggja í kringum 80 íbúðir sem eru án bílskúrs, sem uppfylla þau skilyrði að vera minni og ódýrari. Það er eitt af því sem hefur vantað upp á og við vorum ekki undir það búin. Það voru eiginlega allir byggingakranar farnir úr landi, sögðu menn, það var bara einn eftir hér eftir hrun, markaðurinn var lengi að komast í gang.

Það má líka velta því fyrir sér hvað við getum gert fyrir fólk sem gengur illa, því að það er ekki nóg að íbúðirnar verði ódýrari, fólkinu gengur illa að safna sér vegna þess að leigumarkaðurinn er ónýtur, hvernig við getum aðstoðað það. Eins er það að endurskoða vaxtabæturnar. Miðað við það sem ég sé a.m.k. í fjármálaáætlun þá sýnist mér ekki eiga að breyta eða bæta í þær. Meðaltalshækkun á húsnæðisverði er í kringum 19% á höfuðborgarsvæðinu og hún er enn þá svo mikið upp á við að við verðum lengi að snúa því við þannig að litlar íbúðir á góðum stað verði samt sem áður miklu ódýrari. Eins og ráðherrann kom inn eru lóðirnar dýrari og ýmislegt annað sem krefst samtals um að reyna að breyta.

Ég tek undir að örva þurfi framboðið enn frekar en miðað við spárnar þurfum við svo ofboðslega mikið af húsnæði í nýbyggingu að það verður kannski langur tími sem líður áður en við náum utan um það. Þess vegna held ég að við þurfum að leita annarra leiða sem koma fljótt til framkvæmda.