146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

ráðstafanir gegn verðhækkun íbúðarhúsnæðis.

334. mál
[17:05]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Ég þakka enn og aftur góða umræðu og hv. þingmanni hugmyndina. Kannski ég steli henni bara, ég veit það ekki, það er aldrei að vita.

Mér láðist reyndar að nefna að eitt af því sem við erum að gera í þessum málum, og það kemur fram í fimm ára áætluninni, er að við erum að gera varanlega fjármögnun ríkisins á hinu svokallaða almenna íbúðakerfi sem verða þá 3 milljarðar á ári árin 2018 og 2019 og svo 1,5 milljarðar á ári árin þar á eftir. Við gerum ráð fyrir því að varanlega verði staðið í þeirri uppbyggingu áfram og erum við að reyna að koma upp sæmilega öflugu íbúðakerfi sem er sérstaklega ætlað þessum lágtekjuhópi og eru þá fyrst og fremst leigufélög sem þar er verið að byggja í kringum. Vonandi hjálpar það alla vega þeim sem í eru í hvað þyngstri stöðu.

Við erum að skoða margar aðrar aðgerðir, bæði hvað varðar vaxtabætur, endurskoðun þeirra, hvernig við gætum mögulega styrkt betur við alla tekjulægstu hópana, en ekki síður hvernig getum við betur stutt við fyrstu kaupin, sérstaklega fyrir þann hóp sem glími við allt of kunnuglegt vandamál. Stór hópur ungs fólks sem býr í leiguhúsnæði er í raun og veru með umtalsvert mikla greiðslubyrði en getur ekki stigið fyrsta skrefið inn á fasteignamarkað í eigin húsnæði af því að það nær aldrei að leggja fyrir höfuðstólnum, þótt það hafi vissulega greiðslugetu. Þetta allt saman er verið að skoða.

Ég hef örlitlar áhyggjur af því varðandi norsku leiðina að lækka hámarksveðsetningu annarra kaupa við núverandi kringumstæður, því að þegar markaðurinn er fyrst og fremst að byggja í efsta enda fæðukeðjunnar, ef svo mætti orða það, þ.e. fyrst og fremst fyrir mjög fjársterka aðila, þá þarf hliðrun upp alla keðjuna til þess að ódýra húsnæði losni neðst. Slík aðgerð krefst raunverulega enn meiri eiginfjárbindingar í öðrum kaupum og frestar þá næsta skrefi hjá fólki, þar af leiðandi losna litlu ódýru íbúðirnar síðar. Ég held að það gæti verið varasamt við þessar kringumstæður (Forseti hringir.) þótt hagstjórnarlega séð sé hugmyndin allra góðra gilda verð. En ég þakka enn og aftur fyrir mjög góða umræðu.