146. löggjafarþing — 52. fundur,  3. apr. 2017.

stefna um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

227. mál
[17:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga orðastað við mig um þessi mál. Við höfum aðeins komið inn á þetta í umræðum hér áður tengdum öðrum málum. Ég hygg að í grunninn séum við hæstv. ráðherra nokkuð sammála í þessum efnum. En það er ágætt að geta rætt þessi mál.

Staðreyndin er sú að samkvæmt raforkulögum ber ráðherra að leggja á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ég kannaði þessi mál á þingfundaskrifstofu. Staðreyndin er sú að slík stefna hefur aldrei verið lögð fram. Nú dettur mér ekki í hug að þýfga núverandi hæstv. ráðherra, nýtekinn við, um þá stefnu hér og nú þegar forverar hennar hafa ekki lagt slíka stefnu fram, en mér finnst sú staðreynd allrar athygli verð að þetta hafi aldrei verið gert. Ég hygg að þegar að raforkumálum kemur hafi skort á stefnu stjórnvalda almennt, er ég þá ekki að benda á neinn einstakan flokk öðrum fremur í því. Það tíðkast í nágrannalöndum okkar að stjórnvöld, þingið, setji sér einfaldlega stefnu um raforkumál, hvar eigi að leggja línur, hvernig eigi að haga þeim málum.

Mér finnst staðan eins og hún er í dag eiginlega ótæk, að fyrirtæki í eigu orkufyrirtækjanna sé í raun og veru sett í forsvar til að taka einhvern slag um línulagnir í hvert og eitt einasta skipti. Mér finnst þetta eigi að vera pólitísk stefna sem við tökumst á um. Ég veit að kerfisáætlun kemur hingað inn og ég veit að það er til stefna um jarðstrengi, en það er ekki alveg sami hluturinn og pólitísk stefna.

Seinni hluti fyrirspurnar minnar snýr svo að orkunýtingaráætlun sem ég held að sé nokkuð mikilvægt að setja. Ég kannast ekki við að við eigum slíka. Við horfum allt of mikið á það afl sem mögulegt er að ná og virkja úr þeim kostum sem við eigum. Það er ekki orkunýtingaráætlun. Það er orkuframleiðsluáætlun. Síðan höfum við kannski fundið einhvers konar framleiðslustarfsemi til að nýta það afl í. Þá kemur það sem fyrri hlutinn snýr að sem er að flytja orkuna frá A til B. Ég held að okkur skorti mjög heildstæða stefnu í þessum málum þar sem við horfum á þetta alveg frá A til Ö. Hvernig ætlum við að nýta þá orku sem mögulegt er að framleiða? Í hvað ætlum við að nota hana? (Forseti hringir.) Hvernig ætlum við að koma henni á staðinn? Þá getum við farið að velta því fyrir okkur hvort við séum tilbúin að virkja hana.