146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Við ætlum að reyna að klára þessa umræðu og mig langar að fara aðeins yfir það sem við höfum talað um.

Til að byrja með höfum við talað um hvað eigi að vera í stefnunni. Almennt séð á fjármálastefnan að fjalla um umfang og afkomu hins opinbera næstu fimm árin. Hún á að fjalla um þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga. Í síðasta lagi á að vera ákveðin greinargerð sem skýrir af hverju fjármálastefnan uppfyllir þau grunngildi sem lög um opinber fjármál fjalla um.

Nú er það hins vegar svo að fjármálastefnan var lögð fram strax í upphafi þings og hefur verið í meðförum þingsins í tvo mánuði. Allir nefndarmenn bjuggust við að það kæmu breytingartillögur við fjármálastefnuna því að það vantar ýmislegt í hana. Það vantar að útskýra betur þróun eigna næstu fimm árin. Það er eilítið farið yfir það í áliti meiri hlutans en þó ekki nægilega skilmerkilega. Þegar það vantar tilvísanir í sjálfa stefnuna útskýrir nefndarálit ekki mikið hvað stefnan segir. Ef hún segir ekki neitt gagnast útskýring á engu ekki mikið. Einnig vantar langtímaskuldbindingar, frekari upplýsingar um þær. Talað er um stöðu þeirra en ekki hver stefnan er varðandi þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir þar. Svo er endað á því í stefnunni að fjalla um grunngildi hennar þar sem grunngildin eru útskýrð, hvað þau þýða nánast samkvæmt orðabók. Þar eru grunngildin sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Ég get ekki séð að þau útskýri hvernig stefnan uppfyllir þau grunngildi á neinn gáfulegan hátt.

Talað hefur verið um hvernig við eigum að vinna fjármálastefnuna. Þar gerði ég athugasemd við umfjöllunina hérna. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa tekið þátt í umræðunni. Það var einstaklega mikilvægt. Ég ítreka aftur að ég hefði viljað að stjórnin og fleiri ráðherrar hefðu komið og útskýrt hvernig fjármálastefnan byggi til þann ramma sem stjórnarsáttmálinn setur. Hvar er stjórnarsáttmálann að finna í fjármálastefnu til næstu fimm ára? Hvar eru áherslurnar á heilbrigðismálin og menntamálin? Við fengum ekkert slíkt.

Fyrir utan það sem er ekki í fjármálastefnunni vekur það sem er í henni athygli mína. Þar á meðal er liður III: Öllu óreglulegu og einskiptisfjárstreymi í ríkissjóð verði varið til að hraða enn frekar niðurgreiðslu skulda. Þetta er gríðarlega opið skilyrði. Ég giska á að það verði mjög erfitt að framfylgja því á næstu fimm árum. Þetta á eftir að valda vandræðum.

Einnig höfum við haft smátíma til að kíkja yfir það sem fjármálaáætlunin inniheldur, sem átti að vera í fjármálastefnunni. En það er alltaf erfitt að framfylgja þeirri stefnusetningu því hana á að endurskoða á hverju ári. Varfærnisgrunngildisákvæðið kæmi væntanlega í veg fyrir að því yrði breytt of mikið, en það er aldrei að vita. Ef það er ekkert akkeri í stefnunni sjálfri sem heldur festu í fjármálaáætluninni er ekkert sem segir að ekki sé hægt að skipta um stefnu á miðri leið þegar fjármálaáætlun er næst endurskoðuð.

Að lokum vildi ég nefna að í lögum um opinber fjármál er fjallað mikið um eftirlitshlutverk Alþingis. Mér finnst einkennilegt að við á Alþingi höfum eftirlit með framkvæmdarvaldinu sem jafnframt veitir okkur upplýsingar um hvað það sé að gera. Við getum ekki haft eftirlit með þeim sem segja okkur hvernig þeir starfa. Við verðum að hafa eitthvert stærra (Forseti hringir.) og hlutlausara aðhald á framkvæmdarvaldinu ef við ætlum að sinna eftirlitshlutverki okkar.