146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra ræðuna og vil spyrja aðeins um breytingartillögu þar sem fjármálaráðherra kom með ákveðnar athugasemdir. Frumvarpið var lagt fram á fyrstu dögum þingsins og tveimur mánuðum seinna bjóst fjárlaganefnd alltaf við breytingartillögum, sérstaklega eftir umsögn fjármálaráðs. Af hverju uppfærðum við þá ekki eitthvað af þeim tölum sem við vissum að vantaði?

Aðeins varðandi bankasöluna: Það kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag að arðgreiðslurnar dugðu til að greiða niður þær skuldir sem áætlunin fjallar um. Þá velti ég fyrir mér hvaðan þessi arður kemur. Kemur hann ekki í raun frá neytendum sem eru þá í raun að greiða niður skuldir ríkissjóðs óbeint í gegnum þjónustugjöld bankanna sem eru í eigu ríkisins? Er það þá sanngjarnt eða er ekki bara sanngjarnt að segja að há þjónustugjöld þar séu óbeinn skattur?

Annars er ég mjög sammála hæstv. ráðherra, okkur vantar ákveðið áhættumat í hagfræðilíkönum. Það var fólk þarna úti sem vissi að hrunið væri að verða, það hafa verið gerðar bíómyndir um það og fjallað mjög ítarlega um það hvernig það ferli fór fram. Að sjálfsögðu vitum við að ákveðin vikmörk eru í þeim tölum þó að það sé ekki sett fram á skilgreindu bili. Það má alltaf deila um hversu nákvæm þau staðalfrávik eiga að vera. Ég hefði áhuga á að heyra álit hæstv. ráðherra á því af hverju ekki hafi komið fram breytingartillögur og hversu heiðarlegt það er af okkur að taka svona háan arð af bönkum til niðurgreiðslu skulda ríkisins.