146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég get eiginlega ekki svarað því hvers vegna ekki komu fram breytingartillögu vegna þess að það var fjárlaganefnd sem ákvað það. Þrátt fyrir að svo hafi ekki verið — og ég hefði ekki gert neina athugasemd við að það hefði verið gert — tel ég samt að allt þetta ferli muni nýtast okkur vel í næsta sinn sem við setjum fram fjármálastefnu og kannski sér í lagi fjármálaáætlun en hún er kannski fyrirsjáanleg strax næsta ár.

Varðandi seinni hlutann, í sambandi við arðgreiðslur bankanna, þá get ég alveg tekið undir það að það væri íslenskum neytendum hagfellt ef meiri samkeppni væri í bankakerfinu og reyndar á það við um flest svið samfélagsins að það væri gott ef hér væri meiri og virkari samkeppni. Að sumu leyti er það vegna smæðar íslenska þjóðfélagsins og að öðru leyti kannski vegna þess að erlendir aðilar þora ekki að fara hér inn vegna þess að þeir telja að hér sé of mikil óvissa í efnahagskerfinu, t.d. vegna gjaldmiðilsins sem við höfum talað um fyrr í dag. Varðandi arðgreiðslurnar þá er það þannig núna að bankarnir eru með eigið fé á bilinu rúmlega 20% og upp undir 30%, sem er töluvert yfir þeim lágmarksmörkum sem bankarnir eiga að vera samkvæmt stífustu reglum. Að vísu hefur Fjármálaeftirlitið bætt þar ofan á en engu að síður gætu þeir, með því að minnka efnahagsreikning sinn, dregið úr kröfunum og þannig minnkað eigið fé sitt núna án þess að nokkuð annað gerðist.