146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi aftur: Mér finnst gaman að svara spurningum af þessu tagi þar sem er verið að hugsa um ferlið og hugsa um þetta efnislega, hvernig við gætum gert betur. Auðvitað er spurningin um það hvort stefnan á að koma fram á sama tíma og áætlun eða ekki, eða að minnsta kosti ætti að vera hægt að sjá í áætlunina meðan stefnan væri samþykkt. Þetta er auðvitað álitamál. Ég geri ráð fyrir því að hugsunin hafi verið sú að menn byrjuðu á því að setja rammann áður en þeir færu að hugsa um einstök mál sem sneru kannski að einstökum útgjaldaliðum til að draga úr hættu á því að menn færu að minnka eða þenja rammann út frá því hvernig staðan væri hverju sinni. Ég held að það sé bara mjög vert að hugsa þetta. Þegar maður sér lögin þá er talað um að stefnan komi með fyrstu fjárlögum, má segja, af því að það verklag sem við erum vönust er að þing sé kosið að vori og að ríkisstjórn hafi sumarið til að undirbúa sig og myndi þá leggja fram stefnu og fjárlög á sama tíma. Þannig að við erum auðvitað í svolítið óvenjulegri stöðu núna.

Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að auðvitað er það skattur á íbúana ef ekki er heilbrigð samkeppni. Það væri neytendum mjög hagfellt ef hér væri hagkerfi sem fleiri vildu taka þátt í og myndu vilja keppa neytendum til hagsbóta.

Að lokum vil ég ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir þessa spurningu.