146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu.

177. mál
[18:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Líkt og kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, framsögumanns fyrir nefndaráliti um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu, þá skrifa ég undir það álit og þar með gef til kynna samþykki mitt við því að þessi fríverslunarsamningur verði samþykktur. Ég ætla því ekki að fara að andmæla neinu sem kom fram í máli hv. flutningsmanns nefndarálitsins.

Í 11. kafla í viðauka með fríverslunarsamningnum er fjallað um að umhverfisvernd sé einn af þeim sjálfstæðu þáttum sem eigi að vera undir og talað um að það þurfi að stuðla að sjálfbærri þróun. Þá langar mig að bæta því við að það kom fram í umfjöllun hv. utanríkismálanefndar um málið að loftslagsmarkmið eru ekki partur af samningsmódelinu þegar verið er að ræða viðskiptasamninga eða fríverslunarsamninga. Mér finnst það vera galli. Mér finnst það vera galli á 21. öldinni, mér finnst það vera galli þegar við erum búin að skrifa undir Parísarsamkomulagið að ekki sé horft til þess að það sé partur af því sem rætt er þegar verslunarsamningar eru gerðir á milli landa hvaða áhrif þetta hefur á vistsporið sem af flutningunum hlýst.

Þó svo ég styðji fullgildingu þessa fríverslunarsamnings þá vildi ég engu að síður árétta að þetta finnst mér vanta inn í samningsmódelið og tel að við þingmenn eigum að halda því til haga. Við höfum nú þegar rætt þetta aðeins. Ég kom inn á það í andsvari við hæstv. ráðherra, þannig að hann ætti að vita af því að þetta hefur verið nefnt. Ég tel að nauðsynlegt sé að það verði uppfært hvernig staðið er að gerð svona samninga og hvað það liggur undir í því. Ég tel að við eigum öll að taka það til okkar að passa það að þetta verði tekið áfram og lengra.