146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

varnir gegn mengun hafs og stranda og hollustuhættir og mengunarvarnir.

355. mál
[19:02]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við sjáum hér möguleika á að fylgja MARPOL-samningnum í nánast öllum efnisatriðum. Undanþágan sem hefur verið veitt til þessa var að hluta til ákvæði samningsins vegna þess að sveitarfélög sáu sér ekki fært að hreinsa skolp, þar af leiðandi skaut það skökku við að skip ættu að gera það en bæirnir okkar gátu það ekki. Hefur það breyst? Hafa sveitarfélögin komið sér upp viðeigandi búnaði til þess að við séum raunverulega að uppfylla samninginn í öllum efnisatriðum hans? Annars er gott að vita að við teljum okkur geta uppfyllt samninginn. Það verður áhugaverð umræða sem fer fram í 2. umr. og þá sérstaklega umsagnir sveitarfélaga.