146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

264. mál
[19:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Sjaldan er góð vísa of oft kveðin, þannig að það er taka tvö.

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 sem mælir fyrir um að tvær reglugerðir Evrópusambandsins um nethlutleysi og reikigjöld verði teknar upp í EES-samninginn. Með umræddum reglugerðum er fyrst og fremst hugað að hag neytenda og vernd þeirra, annars vegar með því að stuðla að því að viðhalda hinu almenna opna neti með svokölluðu nethlutleysi og hins vegar með því að minnka kostnað neytenda með afnámi sérstakra reikigjalda, en gert er ráð fyrir að þau verði lögð af í júní á þessu ári.

Megininntak reglunnar um nethlutleysi er fólgið í því að öll umferð um netið skuli meðhöndluð á jafnræðisgrundvelli. Í því felst að notendur geti sótt efni og þjónustu á netinu að eigin vali og að fjarskiptafyrirtæki skuli upplýsa viðskiptavini sína ef fyrirtæki beitir einhvers konar net- og umferðarstýringu. Dæmi um slíka stýringu er t.d. ef fjarskiptafyrirtæki lokar fyrir ákveðna þjónustu netnotenda sinna, svo sem Skype. Með reglugerð Evrópusambandsins um nethlutleysi verða net- og umferðarstýringar að jafnaði óheimilar. Þó eru undantekningar frá þeirri meginreglu, t.d. þegar loka þarf fyrir efni á grundvelli dómsúrskurðar.

Þar sem innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekin upp með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands, nánar tiltekið kallar sá hluti reglugerðarinnar sem fjallar um nethlutleysi á breytingar á lögum um fjarskipti. Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst, svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.