146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

361. mál
[19:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað ég má koma hérna oft upp og segjast vera sammála, það er kannski ágæt regla að gera það endrum og eins. Í það minnsta í þessu tilfelli heyri ég að hv. þingmaður talar af mikilli þekkingu. Ég er sammála sjónarmiðum hans sem koma hér fram, en ástæðan fyrir að ég fór hingað upp var ekki bara til að segja að ég væri sammála hv. þingmanni, ég er í rauninni að hvetja hv. þingmann og aðra þingmenn til dáða. Þetta snýr svo sannarlega að framkvæmdarvaldinu líka, en við skulum ekki gleyma því að Alþingi tekur ákvarðanirnar. Ég held að mikilvægt sé að skoða þetta í því heildarsamhengi hvernig við viljum sjá þetta, hvaða prinsipp við viljum hafa í þessum málum, og vinna okkur síðan í gegnum það. Ég held að það verði ekki bara óskynsamlegt, ég held að það verði afkáralegra með hverjum deginum sem líður, þegar svona auðvelt er að vinna með gögn og upplýsingar, að menn takmarki aðgengi fólks að upplýsingum sem ég held að flestir séu sammála um að séu alveg sjálfsagðar. Þá er ég að vísa í það að menn geta takmarkað það með ýmsum hætti, m.a. með óheyrilegri gjaldtöku svo dæmi sé tekið. Sumt er nú bara þannig þó svo það sé orðið rafrænt, alveg eins og okkur finnst almannaréttur vera sjálfsagður, að fólk geti farið yfir lönd annarra o.s.frv. þá er almannaréttur til staðar á Íslandi og þá hljótum við að vilja sjá einhvern slíkan rétt líka þegar kemur að upplýsingum og gögnum.