146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2016 um breytingu á XIII. viðauka og XX. viðauka við EES-samninginn.

364. mál
[19:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2016 sem mælir fyrir um að reglugerð Evrópusambandsins frá 2015 um losun koltvísýrings frá sjóflutningum verði tekin upp í EES-samninginn. Með reglugerðinni er sett á fót kerfi til að vakta losun koltvísýrings frá sjóflutningum. Er það gert með reglum um vöktun, skýrslugjöf og vottun koltvísýringslosunar.

Reglugerðin tekur til losunar skipa sem eru yfir 5.000 brúttótonnum að stærð en fyrst og fremst er um að ræða farþega- og flutningaskip þar sem flestar aðrar tegundir skipa eru undanþegnar reglugerðinni, þar á meðal fiskveiði- og fiskvinnsluskip. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu eru engin skip yfir 5.000 brúttótonnum skráð hér á landi. Því falla engin íslensk skip undir gerðina eins og er.

Með reglugerðinni er lögð skylda á þann aðila sem ber ábyrgð á starfsemi skipsins að vakta koltvísýringslosun þess. Upplýsingar um losunina skal taka saman í skýrslu sem er síðan vottuð af þar til bærum vottunaraðila og skila til viðkomandi yfirvalda. Komi til þess að íslensk skip falli undir gildissvið reglugerðarinnar mun losunarskýrslu verða skilað til Eftirlitsstofnunar EFTA og Umhverfisstofnunar.

Þegar losunarskýrsla er í samræmi við kröfur reglugerðarinnar ber vottunaraðila að gefa út staðfestingu þess efnis með svokölluðu samræmingarskjali sem skal alltaf haft meðferðis um borð í viðkomandi skipi. Stærsta breytingin sem reglugerðin hefur í för með sér hér á landi er að við hafnaríkiseftirlit bætist skoðun á því hvort samræmingarskjal sé um borð í þeim skipum sem falla undir reglugerðina. Þá gerir reglugerðin þá kröfu til ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu að komið verði á fót viðlagakerfi til að framfylgja ákvæðum reglugerðarinnar.

Ríki sem ekki eru fánaríkisskip sem falla undir reglugerðina eru þó undanþegin viðurlagakerfinu, en Eftirlitsstofnun EFTA hefur nú þegar verið tilkynnt um að Ísland muni nýta sér þessa undanþágu.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á breytingar á lögum um loftslagsmál. Var ákvörðun því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni. Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta slíkum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.