146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 100/2016 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

365. mál
[19:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 100/2016 sem mælir fyrir um að framkvæmdarákvörðun Evrópusambandsins frá 2015 á sviði mengunarvarna verði tekin upp í EES-samninginn. Framkvæmdarákvörðun sem hér er til umfjöllunar er sett á grundvelli tilskipunar Evrópuþingsins frá 2010 sem kveður á um samþættar aðferðir við mengunarvarnir.

Á grundvelli tilskipunar eru sett fram viðmið fyrir tiltekna mengandi starfsemi í formi framkvæmdarákvörðunar. Slíkar ákvarðanir kallast niðurstöður um bestu fáanlega tækni, en við bestu fáanlegu tækni í þessu tilfelli er átt við framleiðsluaðferðir og tækjakost sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Niðurstöður um bestu fáanlegu tækni hafa þýðingu við útgáfu starfsleyfa, en við útgáfu þeirra ber viðkomandi yfirvaldi, sem hér á landi er Umhverfisstofnun, að gera kröfu um notkun bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir.

Í þeirri framkvæmdarákvörðun sem hér er til umræðu eru settar fram niðurstöður um bestu fáanlegu tækni vegna framleiðslu á plötum sem unnar eru úr viði. Niðurstöðurnar taka eins til framleiðslu í verksmiðju sem framleitt getur meira en 600 rúmmetra af viðarplötum á sólarhring, en samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hefur ekki verið veitt starfsleyfi fyrir slíkri framleiðslu hér á landi.

Þar sem tilskipunin, sem framkvæmdarákvörðun byggir á, hefur ekki verið innleidd í íslenskan rétt er ekki að finna lagastoð fyrir innleiðingu ákvörðunarinnar. Var því gerður stjórnskipulegur fyrirvari við upptöku hennar í EES-samninginn af hálfu Íslands.

Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta slíkum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hæstv. utanríkismálanefndar.