146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

loftslagsmál.

356. mál
[20:04]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra ágæta yfirferð í þessu máli. Kannski kemur það skýrast fram í greinargerðinni hversu lítið mál þetta er, ég veit reyndar ekki hvort ég á að segja það, eða a.m.k. hversu lítil áhrif það hefur. Hér segir, með leyfi forseta:

„Áhrif reglugerðar ESB verða ekki mikil á Íslandi þar sem gildissvið reglugerðarinnar nær aðeins til farþega- og flutningaskipa sem eru 5.000 brúttótonn og stærri en eins og fyrr segir sigla engin slík skip undir íslenskum fána.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, því að augljóslega er verið að innleiða reglugerð í tengslum við EES-samninginn, hvort hann telji að hér sé nóg að gert. Í greinargerðinni segir að það hafi ekki síst verið til þess að ekki væru of miklar álögur á skipafélög að miða við þessa stærð. Þetta hefur augljóslega engin áhrif hér og ég veit ekki hvort þetta mun verða nýtt á einhvern hátt í starfi okkar þegar kemur að loftslagsmálum og þeim ágætu markmiðum sem við höfum aðeins komið inn á. En hér segir, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um að láta reglugerðina einungis gilda um skip sem eru stærri en 5.000 brúttótonn var tekin til þess að minnka stjórnsýslubyrði á skipafyrirtæki.“

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að í framhaldinu sé þörf á því að skoða hvort einhverjar innanlandsreglugerðir yrðu settar, hvernig sem stjórnsýslunni yrði háttað um þær, sem tækju líka til annarra skipa.