146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

loftslagsmál.

356. mál
[20:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég vil segja að ég hafi valið rangt orð þegar ég talaði um lítið mál því að vissulega, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, tekur þetta á fleiri þáttum en einungis þeim sem ég kom inn á, ég var kannski aðeins of mikið við hugann við þann þátt. Í greinargerð frumvarpsins segir einnig frá vöktunar-, vottunar- og skýrslukerfi til að vinna að markmiðum ESB. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrsta skref í áttina að því að láta markmið ESB um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda einnig ná yfir losun frá sjóflutningum er að innleiða traust vöktunar-, vottunar- og skýrslukerfi vegna losunar koldíoxíðs frá sjóflutningum. Gert er ráð fyrir að síðar meir verði hægt að verðleggja þá losun.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í þetta. Þýðir það að hér eru engin skip skráð af þessari stærð að við munum ekki koma okkur upp þessu kerfi? Það eru samt náttúrlega farþegaskip sem leggja að höfn hér, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Eða þýðir þetta að við munum koma upp stjórnsýslukerfi sem síðan verður hægt að nýtast við muni einhverjar svipaðar tilskipanir ná til annarra skipa, eins og hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á og gott að heyra að vinna er þegar hafin þar við?

Svo kom hæstv. ráðherra inn á að flugið er allt undanskilið, sem er pínulítið vandræðalegt almennt í loftslagsmálum heimsins. Þá er ég alls ekkert að horfa á Ísland, en það er spurning hvað er að frétta af þeim málum. Ég ætlast ekki til að ráðherra svari mér í löngu máli um það, ég vildi bara aðeins koma inn á það. Það er alltaf tekið út fyrir svigann.

Mig langaði að spyrja beint út í þetta vöktunar-, vottunar- og skýrslukerfi. Verður því komið upp sem verður svo hægt að nýtast við?