146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

376. mál
[20:20]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög réttmætar athugasemdir og vangaveltur hv. þingmanns um starfsleyfi, hvort við eigum að hafa það alveg klárt og kvitt í lögum að einhver starfsemi sé bara háð skráningu en ekki sérstöku starfsleyfi. Það þarf að skoða þessa breytingu með orð mín frá því áðan í huga. Við erum með markmið um mengunarvarnir og hollustuhætti sem við þurfum að lúta og það verður alltaf. Um það eru sérstök lög en það er blæbrigðamunur á starfsemi, hvort um er að ræða verksmiðju sem mengar eða, eins og hv. þingmaður kom inn á, hvort við erum að tala um heimagistingu, eins og hér hefur verið kallað í daglegu tali airbnb-leyfi. Þarf svoleiðis starfsemi að gangast undir kvaðir eða skyldur sem eru í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir? Ég er nokkuð viss um að fólk er sammála um að um þessi tvö dæmi gildi ekki alveg sömu reglur.

Hér er alveg ljóst að við leggjum til þessar breytingar til að heimagisting sé tilkynningarskyld í rauninni en ekki starfsleysisskyld. Við höfum verið að breyta, gerðum það á síðasta þingi, öllu lagaumhverfi í kringum þetta, (Forseti hringir.) en það er ekki nóg. Markmiðið er að færa þessa starfsemi upp á yfirborðið er það er okkar mat að með því að gera fólki kleift að tilkynna í staðinn fyrir að sækja um sérstakt leyfi munum við gera þetta mun opnara.