146. löggjafarþing — 53. fundur,  3. apr. 2017.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

376. mál
[20:22]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Nú má vel vera að ég misskilji, og væri það þá ekki í fyrsta sinn, en eins og ég hef lesið í þetta er í raun ekki tæmandi listi yfir þá starfsemi sem væri hægt að breyta hvað þetta varðar, að ekki þurfi starfsleyfi lengur heldur sé einungis skráningarskylda. Væntanlega er þetta nokkuð sem við munum ræða bæði í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og svo áfram við vinnu þessa máls. Ef þetta snýst um það sem ég get alveg tekið undir að sé gott markmið, að fá airbnb-starfsemi upp á yfirborðið, velti ég fyrir mér hvort ekki ætti einfaldlega að segja það í sjálfu frumvarpinu.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra með að ég er alveg viss um að til er alls kyns starfsemi sem þarf ekki að lúta ströngustu reglum um lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ég er samt líka sannfærður um að því skýrara sem lagaumhverfi er, því betra sé það fyrir alla og að það komi fleiri að því þegar kemur að stjórnsýslunni að ákveða hvort eigi að breyta svona umhverfi varðandi ákveðna starfsemi. Nú erum við til að mynda að ræða um heimagistingu en á næsta ári gæti það verið eitthvað annað og þarnæsta enn annað og næsti ráðherra verður með eitthvað enn eitt. Yrði þá settur í svona lög tæmandi listi sem þyrfti einfaldlega að breyta ef ætti að halda áfram eða á þetta vald heima hjá hæstv. ráðherra hverju sinni?