146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Fyrir ári síðan var opinberunin algjör. Krakkinn benti á nýju fötin keisrarans frá skraddaranum í Panama og allir sáu svindlið, hagsmunatengslin, aðstöðumuninn, ósvífnina og valdsmisbeitinguna. Fyrir sjö árum var opinberunin líka alger. Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið var skilað þann 12. apríl. Þar var samfélagið ógeðslegt, engar hugsjónir, bara tækifærismennska og valdabarátta, eins og var komist að orði þar. Fyrir nokkrum dögum var opinberunin aftur alger. Helmingaskipti og blekkingar, spilling á kostnað fólks í landinu, spilling sem leiddi til algers hruns bankakerfisins, hrun ógeðslegs samfélags sem pólitík tækifærismennsku og valdabaráttu bjó til.

Ég vil ekki búa í ógeðslegu samfélagi. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem forsætisráðherra lýgur að þjóðinni. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem tækifærismennska og valdabarátta ræður ríkjum. Ég vil ekki búa í samfélagi spillingar þar sem vinir og fjölskylda ráðamanna fá forréttindameðferð. Ég vil hins vegar búa á Íslandi með vinum og fjölskyldu, með Kirkjufellinu og Helgrindunum, Landamannalaugum, páskahretinu og einstaka eldgosi. Það er rosalega auðvelt að komast hjá því að búa í ógeðslegu samfélagi. Maður getur gert það með því að taka ábyrgð á sínu vali, með hverjum maður vinnur og hverjum maður gefur aðgang að völdum.

Ábyrgðin liggur hjá þér, hæstv. fjármála- og efnaahgsráðherra, og þér, hæstv. heilbrigðisráðherra. Áframhaldandi ógeðslegt samfélag er í boði ykkar. Sama hversu vel þið meinið, sama hversu göfugan tilgang þið hafið, sama hversu einlægir þið eruð í ykkar verkum þá hleyptuð þið lyginni aftur inn í samfélagið. Það gerðuð þið með yfirlögðu ráði eftir að lygin komst upp og gerið það á hverjum degi sem forsætisráðherra er Bjarni Benediktsson. Þið gerðuð það þrátt fyrir að krakkinn benti og sagði að keisarinn væri nakinn. Kannski er búið að benda svo oft á nakta keisarann að ykkur er orðið alveg sama. Kannski er krakkinn í sögunni (Forseti hringir.) bara sá hinn sami og var í sögunni Úlfur, úlfur. Ef svo er þá vona ég að ég sé ekki að skemma endinn á sögunni, (Forseti hringir.) en úlfurinn gleypti krakkann.