146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Í nýrri fjármálaáætlun 2018–2022, sem kynnt var fyrir helgi, kemur m.a. fram að allur þyrlukostur Landhelgisgæslunnar verði endurnýjaður á næstu árum. Hér er um að ræða fjárfestingu upp á 14 milljarða. Ég tel að hér sé um ákaflega jákvæðar fréttir að ræða. Þyrlukostur Landhelgisgæslunnar samanstendur í dag af þremur Aerospatiale Super Puma þyrlum sem komnar eru til ára sinna. Sú elsta, TF-LIF, er orðin þrítug og ég tel að þetta verði mikil bót fyrir öryggishagsmuni Íslands og þess svæðis sem Ísland og Landhelgisgæslan þjóna í Norður-Atlantshafi. Það svæði sem sinnt er af leitar- og björgunarþjónustu Landhelgisgæslunnar er 17 sinnum stærra en Ísland og því tel ég þetta ákaflega jákvætt skref.

Mig langaði bara að gleðjast með þingheimi yfir þessu þar sem sjaldan er fagnað einhverjum hlutum hér. Þetta er jákvætt og stórt mál. Ég man að fyrir 30 árum tók það heilan þingvetur að kaupa eina þyrlu. Nú erum við í þeirri stöðu að geta gert betur. Ég er því ákaflega ánægður, satt að segja, með að þetta sé komið fram. Áður en þessar fréttir bárust í tengslum við fjármálaáætlunina á föstudaginn hafði ég beðið um sérstaka umræðu í þinginu um Landhelgisgæsluna og endurnýjun þyrluflotans. Vonandi getur sú umræða farið fram í þinginu fljótlega eftir páska. En þetta eru gleðilegar fréttir og það er gott að geta fagnað einhverju einhvern tímann.