146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég set upp þverslaufu frá því að ég lék Össur Skarphéðinsson í menntaskólaleikriti fyrir nokkrum áratugum, en nú geri ég það af virðingu við fjölbreytileika einhverfunnar.

Nú eru liðnir fjórir dagar frá því að hæstv. fjármálaráðherra kynnti viðhafnarútgáfu að nýrri fjármálaáætlun og henni var varpað upp á litfögrum glærum og fylgt úr hlaði með loforðum um stórfellda uppbyggingu. Á fjórum dögum sem síðan hafa liðið hefur farfinn lekið af pappírnum og eftir stendur svart/hvít hægri stefna síðustu ríkisstjórnar. Á undanförnum dögum hefur verið dregin upp mynd af fjölmörgum ágreiningsmálum ríkisstjórnarflokkanna en það sem stendur eftir, þegar plaggið er skoðað, er að þessi ágreiningur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar virðist vera algjörlega til heimabrúks. Þau hafa bægslast um í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum en niðurstaðan er sú að stefna Sjálfstæðisflokksins hefur algjörlega orðið ofan á. Þessi glíma hefur ekki tekið meira en 80 daga, frú forseti. Gunnar Nelson hefði sennilega orðið ánægður með svo snarpan bardaga.

Í gær steig rektor Háskóla Íslands fram í fréttum og sagði að fjármálastefna til næstu fimm ára ylli honum miklum vonbrigðum og hún samræmdist ekki þeim loforðum sem gefin hefðu verið í kosningabaráttunni í haust. Þá lýsir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands, því yfir að það stefni í algjört óefni við háskólann, ekki síst í íslenskukennslu sem er nú reyndar fag hæstv. menntamálaráðherra.

Frú forseti. Á næstu árum munum við takast á við stærstu samfélagsbreytingar sem riðið hafa yfir síðan í iðnbyltingunni á 19. öld. Það skiptir máli að menntun verði mikilvæg í lífi okkar til þess að við getum snúið þessari breytingu okkur í hag. Þar dugar engin skammsýni. Við getum ekki haldið áfram að leggja fram tæplega helmingi minna en aðrar Norðurlandaþjóðir til háskólanáms. Nú verður hæstv. menntamálaráðherra að koma sér upp úr djúpunum, setja hausinn yfir yfirborðið og líta á nákaldan veruleikann, eins og hann blasir við.