146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisvangavelta og menn hafa auðvitað velt því fyrir sér. Ég hef reynt að ganga úr skugga um að svar liggi fyrir og mér skilst að það sé ekki hægt vegna þess að hér er eingöngu verið að fjalla um barn móður sem er tæknifrjóvgað í hjónabandi. Það breytir því ekki að eftir sem áður er staðgöngumæðrun óheimil samkvæmt íslenskum lögum. Þetta ákvæði á ekki að geta, getur ekki og er ekki hugsað til þess að mæta þeim áskorunum, sem svo sannarlega eru fyrir hendi í tilfelli staðgöngumæðrunar barna sem eru getin á erlendri grundu. Þetta ákvæði er ekki hugsað sem svar við þeim áskorunum. Ég tel hins vegar borðleggjandi að umræðu um það þurfi að taka á m.a. þessum vettvangi.