146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum svarið og fagna því að hún sé ekki með þessu að ætla staðgöngumæðrun að komast bakdyramegin inn í íslensk lög. Ég er samt ekki jafn bjartsýnn og ráðherrann varðandi það að þetta loki algjörlega fyrir það af því að lagaumhverfið í ríkjum þar sem staðgöngumæðrun er heimil er mjög ólíkt á milli landa. Sums staðar er það svo að par sem nýtir sér þjónustu staðgöngumóður er samkvæmt lögum þess ríkis skráð foreldrar barnsins. Sú sýn að þessi heimild sé bundin við móður barns í okkar augum getur orðið ansi óskýr þegar lagaumhverfi annarra ríkja er tekið inn í myndina. Þetta er greinilega eitthvað sem við þurfum að skoða rækilega í meðhöndlun nefndarinnar. Ég mun væntanlega (Forseti hringir.) banka upp á hjá ráðherranum með liðsinni í því máli.