146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd til þess að skoða þetta mál sérstaklega og fjalla um það. Ég vek hins vegar athygli á því að það sem skiptir mestu máli hvað þetta ákvæði varðar er að þar er einmitt skilgreiningin á foreldri. Hér er verið að vísa til þess foreldris. Líka er gerður sá fyrirvari að Þjóðskrá Íslands er falið það hlutverk að meta gildi framlagðra gagna foreldris, m.a. hvort tæknifrjóvgun hafi verið gerð samkvæmt heimild þar til bærra stjórnvalda og dómstóla. Með tæknifrjóvgun er verið að tala um tæknifróvgun á því foreldri barnsins sem er í hjónabandi með hinu foreldrinu, ef ég get leyft mér að orða þetta svona klaufalega. En þessi mál geta auðvitað orðið flókin. Ég hvet nefndina til að fjalla sérstaklega um þetta.