146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:15]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst og fremst að koma hingað upp og fagna því að hæstv. ráðherra mæli fyrir þessu máli í dag. Þetta er mikil réttarbót fyrir mikinn fjölda fólks, líklega fleira en mörg okkar grunar og í mjög viðkvæmum og oft og tíðum erfiðum málum.

Mig langar að vera svolítið sjálfhverf og horfa fyrst á það, í þessu fyrra andsvari alla vega, sem lýtur að samkynja foreldrum þar sem tveir feður hafa átt erfitt með að uppfylla það að annars vegar ganga með barnið og hins vegar vera giftir konunni sem gekk með barnið. Þetta leysir heldur betur úr því.

Mig langar að spyrja í fyrsta lagi hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að slíkir foreldrar sem og aðrir sem hafa átt, og eiga, í vandræðum fyrir gildistöku þessara laga geti gengið sjálfkrafa inn í það þegar frumvarpið verður að lögum, hvort þeim dugi líka að sækja bara um ef þeir hafa fengið höfnun hingað til? Er það ekki réttur skilningur hjá mér svona í fyrstu umferð?