146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna að við séum loks að fullgilda samninga sem voru undirritaðir 1954 og 1961. Mig langaði að spyrja sérstaklega um 2. gr. þessa frumvarps þar sem fram kemur að sá sem er fæddur hér á landi og hefur verið ríkisfangslaus frá fæðingu öðlast íslenskt ríkisfang með skriflegri tilkynningu til Útlendingastofnunar áður en hann nær 21 árs aldri. Tilkynning skal lögð fram af forsjármönnum hafi hann ekki náð 21 árs aldri og skal einstaklingurinn hafa dvalið samfellt hér á landi frá fæðingu og a.m.k. í þrjú ár þegar tilkynningin er lögð fram. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki séð tilefni til að fylgja frekar ákvæðum 1. gr. a samnings um vinnslu gegn ríkisfangsleysi þar sem fram kemur að einstaklingar geti hlotið ríkisfang við fæðingu hér á landi og hvers vegna sú leið var ekki valin, þ.e. hvaða sjónarmið voru gegn því.