146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:25]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra svarið. Ég má til með að skýra aðeins betur hvað ég átti við. Ég er einungis að ræða um að veita börnum sem fæðast hér ríkisfangslaus ríkisborgararétt við fæðingu, þ.e. að það sé ekki almenn regla að fæðist börn hér sem hafa ríkisborgararétt annarra landa eða eiga foreldra með ríkisborgararétt frá öðrum löndum leiði það sjálfkrafa til ríkisfangsleysis, að þau fái sjálfkrafa ríkisborgararétt við að fæðast hér, en hins vegar að við tökum undir þau markmið sem er að finna í 1. gr. a samningsins í vinnu gegn ríkisfangsleysi um að börn sem fæðast ríkisfangslaus í löndum sem eru aðilar að þessum samningi hljóti ríkisfang við fæðingu í því landi.

Ég nefni þetta sérstaklega þar sem dæmi eru um að börn flóttamanna hafi fæðst hér á landi og að til hafi staðið a.m.k. að vísa þeim á brott þar sem þau hafa ekki talist geta fengið íslenskan ríkisborgararétt en ekki heldur getað sótt um ríkisborgararétt frá upprunalandinu, enda var staða þeirra flóttamaður. Því spyr ég hvort sé ekki tilefni til þess að taka á því í þessum lögum