146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

íslenskur ríkisborgararéttur.

373. mál
[14:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég má til með að endurtaka að ég fagna þessu frumvarpi, en má kannski til með að skýra aðeins þau orð sem ég lét falla í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan er varðar 2. gr. frumvarpsins. Það er vissulega svo að samningur um afnám ríkisfangsleysis gerir ráð fyrir tvenns konar leiðum til að standast kröfur þess samnings hvað varðar að veita ríkisfangslausum börnum ríkisfang. Þær leiðir eru annaðhvort a- eða b-leiðin, ef svo mætti að orði komast, sem finna má í fyrsta ákvæði samnings um afnám ríkisfangsleysis.

Fyrsta ákvæðið gengur út á það að ríkisfang yrði veitt við fæðingu samkvæmt lögum, það er finna í a-liðnum, og seinna ákvæðið er að finna í b-liðnum sem gerir stjórnvöldum kleift að setja reglur um tímafrest og um einhvers konar formreglur sem gildi við veitingu ríkisborgararéttar barna sem fæðast á yfirráðasvæðum aðildarríkjanna og hversu langur tími þarf að líða þar til slík börn geti fengið ríkisfang o.s.frv.

Álit mitt snýr að því að ef markmiðið og inntakið með sáttmálanum er skoðað og ef við veltum fyrir okkur hver tilgangur með þessum samningi sé þá er það að koma í veg fyrir ríkisfangsleysi og að koma í veg fyrir, sérstaklega í þessu tilfelli, að börn hljóti skaða af því að hafa ekki ríkisfang, en það getur reynst einstaklingum mjög skaðlegt að hafa ekki ríkisfang. Því tel ég fullt tilefni til að skoða hvort Ísland kjósi ekki frekar að rýmka tilkall barna sem fæðast hér ríkisfangslaus til þess að hljóta hér íslenskt ríkisfang fremur en að setja þær skorður að þrjú ár þurfi að líða frá því barnið fæðist þar til það getur fengið íslenskt ríkisfang, þ.e. þar til það getur tilkynnt um veru sína hér. Því að núverandi löggjöf hefur alla vega leitt það af sér að flóttamannafjölskyldum sem eignast börn hér á landi stafar ógn af því að vera vísað af landi brott þrátt fyrir að börn þeirra hafi fæðst hérlendis og þrátt fyrir að börnin geti ekki nálgast ríkisfang neins staðar annars staðar, sem setur þessar fjölskyldur oft í veruleg vandræði þegar kemur að því að þær ferðist á milli staða, sæki sér einhvers konar þjónustu, að þær fái einhvers konar pappíra. Því eins og við vitum samkvæmt flóttamannarétti er móttökuríkjum ekki heimilt að taka eða sækja um pappíra fyrir flóttamenn frá þeim ríkjum sem þeir eru að flýja frá, enda væri það andstætt ástæðum flóttans, þ.e. þá væri verið að vekja athygli stjórnvalda þess lands sem flóttamaðurinn kemur til á því hvar flóttamaðurinn er staddur í heiminum og hvað hann er að gera.

Af þeim sökum vil ég ítreka að mér þætti æskilegra að við myndum breyta þessu frumvarpi og vonandi tekur hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd undir það með mér í meðförum málsins í nefndinni að hægt væri að breyta þessu ákvæði sem svo að barn sem fæðist ríkisfangslaust eða ætla megi að verði ríkisfangslaust við fæðingu, eigi rétt á íslensku ríkisfangi við fæðingu frekar en að það þurfi að bíða í þrjú ár, því að eins og við vitum hefur Útlendingastofnun notast við ákveðið tæknilegt atriði um að vísa í það að þær kennitölur sem flóttamenn hafa fengið hér á landi séu ekki venjulegar kennitölur eins og við fáum hér, Íslendingar. Því sé ekkert því til fyrirstöðu að vísa ungabörnum og fjölskyldum þeirra frá Íslandi þrátt fyrir að börnin hafi fæðst á Íslandi.

Þetta þykir mér mjög leiðinleg framkvæmd og vissulega mögulega í andstöðu við bæði alþjóðlegan flóttamannarétt sem og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og eins 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lýtur að fjölskyldulífi og rétti til friðhelgi einkalífs. Því tel ég mjög mikilvægt að í meðförum nefndarinnar í þessu máli lítum við ekki einungis til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í andsvörum hv. þingmanna við ræðu hæstv. ráðherra, heldur tökum við einnig alveg sérstaklega mið af þessu, að ef okkur er virkilega annt um að afnema ríkisfangsleysi og vinna gegn þeim skaða sem það getur valdið þeim einstaklingum sem fyrir því verða, þá gerum við gangskör að því að hafa hér ákvæði sem heimilar Þjóðskrá að veita ríkisfang barni sem fæðist hér á landi.