146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vegabréf.

405. mál
[14:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að vegabréf eru afskaplega mikilvæg gögn, ekki bara vegna þess að alþjóðleg glæpasamtök kaupi þau dýru verði heldur líka vegna þess að þetta eru einu persónuskilríkin sem hið opinbera gefur út hér á landi, alla vega þar til frumvarp hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés og fleiri þingmanna um persónuskilríki á vegum hins opinbera verður samþykkt. Látum það liggja á milli hluta. Þess vegna skiptir miklu máli að vandað sé til verka og ég verð að viðurkenna að það fara alltaf viðvörunarbjöllur í gang hjá mér þegar við förum að tala um útvistun verkefna hins opinbera. Hér er verið að tala um að útvista framleiðslu á þessum grunngögnum sem eru einstök hjá íslenska ríkinu. Útvistun verkefna hins opinbera reynist ekki alltaf vera sá happafengur fyrir ríkiskassann sem af er látið þegar lagt er af stað.

Hér er talað um umfangsmiklar fjárfestingar og ráðherra nefndi að nú þegar hefðu verið gerðar ráðstafanir til að fjármagna þetta útboð til átta ára. En það kemur hvergi fram í texta frumvarpsins hver áætlaður kostnaður við innkaup á kerfi í eigu ríkisins væri og ekki heldur hver mögulegur rekstrarkostnaður á leiðinni sem hér er lögð til, útvistun útgáfu vegabréfa, væri. Þetta eru tölur sem ég tel eiginlega nauðsynlegt að við höfum í höndunum ef við eigum að taka upplýsta ákvörðun um það hvort hér sé um mál að ræða sem sé til hagsbóta fyrir ríkissjóð eða ekki, þó að við skoðum bara þann þrönga vinkil á það.