146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vegabréf.

405. mál
[14:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski dálítil einföldun á þessu máli að telja að verði þetta frumvarp að lögum, eða breytt framkvæmd á útgáfu vegabréfa, sé það útvistun á verkefnum. Það er ekki þannig. Það hafa auðvitað verið samningar við fyrirtæki sem gefa út vegabréf og í dag eru það örfá fyrirtæki í heiminum sem hafa sérhæft sig í útgáfu vegabréfa. Eitt þeirra hefur verið okkur á Íslandi innan handar með útgáfu vegabréfa. Þótt kerfið hafi verið til staðar hér á landi, þ.e. prentunin og fleira hér innan lands og útgáfan sjálf í kerfi sem Þjóðskrá hefur átt, þá liggur fyrir að kerfið sjálft þyrfti að taka verulegum tæknilegum breytingum, uppfærslu, ef það ætti að standast tímans tönn. Því hefur það verið metið þannig að heppilegra sé að leigja slíkt útgáfukerfi, en ekki eiga það, af einhverju af þeim örfáu fyrirtækjum á alþjóðavísu sem hafa sérhæft sig í gerð slíkra kerfa. Þetta mál lýtur því bara að mögulegri breytingu á framkvæmd á fyrirkomulagi eða eignarhaldi kerfisins sem slíks. Verkefnið verður eftir sem áður hjá annaðhvort Þjóðskrá eða sýslumönnum. Menn leita nú til sýslumanna um útgáfu vegabréfa en það hefur verið Þjóðskrá sem hefur gefið vegabréfin út.

Ég vil því árétta að það er ekki breyting hvað þetta varðar. Þetta er bara spurning um hvort Þjóðskrá eigi að eiga kerfið eða leigja það.