146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vegabréf.

405. mál
[14:56]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er um það að ræða að framleiðslan á vegabréfunum fari úr landi. Hún verður eftir sem áður hjá Þjóðskrá eða annarri opinberri stofnun eftir atvikum, en framleiðslan verður hér. Spurningin er bara um hvort menn vilji kaupa slíkt kerfi. Frá mínum bæjardyrum séð væri það svo sem ekkert óeðlilegt að ríkið legði áherslu á að eiga slík tæki. Ég hef t.d. þá skoðun að ríkið eigi að eiga tilteknar fasteignir sem hýsa grundvallarstoðir þjóðfélagsins fremur en að leigja, í mörgum tilvikum að minnsta kosti. Hér hefur það hins vegar verið metið þannig að kostnaður við að uppfæra þetta kerfi eða kaupa nýtt væri svo miklu meiri en við að leigja það að ekki er talið stætt á öðru en að reyna það til þrautar. Fjárhæðin liggur hins vegar ekki fyrir vegna þess að um útboð yrði að ræða. Það fé sem við höfum kannski reiknað með að fari í þetta — við ætlum ekki að gefa það upp áður en útboðið fer fram, en við vonumst til þess að við fáum hagstætt tilboð eftir þetta útboð og að sem lægst fjárhæð fari í þetta mikilvæga mál.