146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vegabréf.

405. mál
[14:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að leggja hv. allsherjar- og menntamálanefnd línurnar um hvað hún eigi að spyrja um og hvað ekki. Ég hvet nefndina auðvitað til að fjalla um kostnaðarhliðina. Það er aðalatriði frumvarpsins, kostnaðarhliðin. Það er því ástæðulaust annað en að ræða það sérstaklega. Ekki er ástæða til annars en að veita hv. nefnd nánari upplýsingar um kosti og galla þess í fjárhagslegu tilliti, þ.e. kosti og galla þess að leigja eða kaupa kerfi. Það kann að vera að fyrir liggi tölur sem hægt er að fullyrða út frá hver kostnaður af nýju kerfi er. Kaup á svona kerfi, eða leiga, eru ekki gerð nema að undangenginni töluverðri vinnu og það segir mér að eitthvað er flókið í þessu. Fullyrt er við mig að það taki tvö ár að undirbúa útboð í þessum málum, geti gert það, og að undirbúa samninga um leigu á slíku kerfi. Ef menn ætluðu að kaupa það þyrfti líka að leggja töluverðan kostnað í þarfagreiningu og þar fram eftir götunum. En ég hvet hv. allsherjar- og menntamálanefnd eindregið til að ræða þetta mál. Þetta er aðalmálið í frumvarpinu.