146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vegabréf.

405. mál
[15:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get í sjálfu sér alveg haft samúð með því sjónarmiði að menn vilji tryggja grundvallarstoðir ríkisins, hvort sem það eru fasteignir, kerfi til að sinna grundvallarþjónustu eða annað, tryggja að það sé eign íslenska ríkisins og að starfsemin fari fram hér á landi. Þegar kemur að afskaplega sérhæfðum markaði eins og útgáfu vegabréfa eða myntslætti, svo að ég taki dæmi sem er svolítið tengt, þá er það bara þannig að það eru ekki nema örfá fyrirtæki í heiminum sem hafa sérhæft sig á því sviði og við höfum leitað til. Þetta eru fyrirtæki sem sæta gríðarlega miklu gæðaeftirliti og gerðar eru gríðarlega miklar öryggiskröfur til og ég tel að því leyti að hagsmuna íslenska ríkisins og íslenskra ríkisborgara ætti að vera gætt með viðskiptum við þá aðila.