146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skattar, tollar og gjöld.

385. mál
[15:28]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að fara mjög svipaða leið og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir varðandi spurningar um kostnaðarmat, ekki bara vegna þess að það vantar kostnaðarmatið heldur vegna þess að það er mótsögn í kafla 7 um mat á áhrifum. Það stendur, með leyfi forseta:

„Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu ekki hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs …“

En síðar segir að gera megi ráð fyrir 20–350 millj. kr. endurgreiðslum vörugjalda vegna fyrri álagningar, sem mér þykir frekar breitt bil. Það væri hægt að líta þannig á að ef bilið væri 20–35 milljónir eða 200–350 milljónir væri það innan eðlilegra marka, en þetta er mjög breitt bil. Svo eru nokkrar aðrar áætlanir, m.a. um 40 milljónir vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Samanlagt sé ég að þetta hljóðar upp á allt að 7 kr. af hverjum 10 þús. sem koma í ríkissjóð á hverju ári. Mér þykir það heldur há tala.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvaða hlutfall af þeim tekjum sem koma í ríkissjóð þarf að koma til sögunnar í frumvarpi til þess að frumvarpið teljist þess eðlis að það hafi teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs?

Ég spyr vegna þess að mig langar til það að eiga þær tölur til svo að ég geti í framtíðinni skilið hvernig hæstv. fjármálaráðherra sér allar þær breytingar sem gætu haft áhrif á afkomu ríkisins.