146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skattar, tollar og gjöld.

385. mál
[15:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þrátt fyrir að ég hafi farið út í þennan eina lið frumvarpsins í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra er ýmislegt annað sem kemur til í frumvarpinu sem er þess virði að ræða. Sumt af því kom fram í máli hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur áðan. En fyrsta atriðið er kannski það að mjög athugavert er að gerð sé undantekning á virðisaukaskatti og gistináttagjaldi fyrir ýmsa aðila, sem ég veit ekki til að sé nein raunveruleg góð ástæða fyrir, fyrir utan það að það stendur í samningum, að þeir fái undanþágu, m.a. herlið Bandaríkjanna. Orðalagið er kannski líka svolítið sláandi. Talað er annars vegar um erlendan liðsafla og hins vegar herlið Bandaríkjanna. Hvers vegna telst þetta tvennt ekki vera það sama?

Í einhverjum skilningi erum við að tala um herafla af einhverju tagi sem tengist samstarfi okkar í Atlantshafsbandalaginu og kannski öðrum borgaralegum deildum, en mér þykir orðalagið mjög varhugavert. Svo er það einnig varhugavert að við séum yfir höfuð að gefa svona undanþágur á virðisaukaskatti annars vegar og svo gistináttagjaldi og öðru í samningum vegna þess að það þýðir, eins og kom fram í máli hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, að þarna erum við hreinlega farin að greiða með þessum herliðum þegar þau hafa viðdvöl hér. Ég man eftir einu tilteknu tilfelli þegar ég átti ferð um Leifsstöð og sá þar herdeild slóvenska hersins sofandi undir stigapalli. Ég veit ekki alveg hvaða erindi hún átti, en ég á ekki von á því að hún hafi borgað gistináttagjald.

Svo maður haldi aðeins áfram með þetta er sagt í greinargerðinni um meginefni frumvarpsins, að ekki sé um efnisbreytingar að ræða varðandi nokkrar leiðréttingar á lögum um tekjuskatt og lögum um tryggingagjald.

Í nánari yfirferð þykir mér þetta einhvern veginn ekki alveg vera nógu skýrt hvað nákvæmlega er ekki verið að breyta efnislega. Yfirferðin í því gæti verið skýrari og ég vona að þetta verði tekið upp hjá nefndinni.

Það er svona eitt og annað, en í rauninni er það kannski fyrst og fremst þetta varðandi alþjóðastofnanirnar sem kemur til. Og, jú, það er reyndar þar sem talað er um, afsakið hægaganginn, herra forseti, ég var í rauninni að merkja hér við í frumvarpinu í flýti. En í kafla 4.6 í greinargerð frumvarpsins er talað um eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í allnokkrum málum hafa meintir brotamenn verið sýknaðir af broti gegn ákvæðum 172. gr. tollalaga þrátt fyrir að upplýst hafi verið og jafnvel viðurkennt að réttar upplýsingar hafi ekki verið veittar.“

Mælt er fyrir því að refsiheimildin verði útvíkkuð og talað um hreint gáleysi frekar en stórfellt gáleysi. Ég velti fyrir mér hvort það að útvíkka refsiheimildir sé endilega sú nálgun sem er best að taka. Refsigleði hefur ekki endilega skilað okkur góðu samfélagi og kannski er hægt að nálgast þetta með öðru móti. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki staður þar sem við gætum kannski skoðað sektir eða eitthvað þess háttar frekar en að vera með einhverjar eiginlegar refsingar.

Það er líka áhugavert í kafla 4.9 að talað er um úrvinnslugjaldið. Nú var ég í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem hæstv. fjármálaráðherra var formaður þegar við fórum í gegnum þetta. Sá hamagangur sem átti sér stað þar var kannski hluti af tilefninu til þess að við lentum í því að gera þau mistök sem rædd eru hér. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvaða tollskrárnúmer það eru sem um ræðir, en ljóst er að þetta er góð áminning um það að við þurfum að vanda mjög vel til verka þegar við erum að vinna hlutina og fara kannski frekar hægar yfir en að gera svona mistök eins og hafa ítrekað komið upp í ýmsum málum núna í vor.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta nema bara til að benda aftur á að mjög mikilvægt er að við höfum raunverulegan skilning á því hvað telst vera teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs og hvað telst ekki vera teljandi áhrif. Nú spurði ég hæstv. fjármálaráðherra tvívegis að því hvað hann teldi vera teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs, hvar nákvæmlega þau mörg lægju. Í þessu frumvarpi er talað um allt að 7 kr. af hverjum 10.000 kr. sem koma í ríkissjóð, eða 0,07% af heildartekjum ríkissjóðs. Mér finnst alveg full ástæða til þess að við förum að sjá töluvert betur vandaðri greiningar á kostnaðarþáttum við fjárlög heldur en hér er.

Þetta er flókið frumvarp. Ekki endilega vegna einstakra efnisatriða heldur vegna þess að þetta tekur til svo rosalega margra mismunandi þátta. Það væri áhugavert að skilja betur hvers vegna þetta gátu ekki verið nokkur aðskilin frumvörp sem tækju til sérstakra efnisþátta hvert fyrir sig. Í ljósi strúktúrsins minnir þetta kannski helst á fjárlagabandorm. Það er kannski ekki hefði fyrir því að taka slíkt fyrir að vori. En mun það verða svo að við sjáum á næstu árum að slegnir verði fram einhverjir langir bandormar með alls konar hinum og þessum ákvæðum sem taka til alls, frá tollareglum til refsiákvæða? Það er spurning sem ég vona að við fáum svar við.