146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skortsala og skuldatryggingar.

386. mál
[15:49]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir kynninguna á þessu frumvarpi. Ég er sammála mörgum markmiðum þess. Í ljósi sögunnar, þar sem skortsala hefur ítrekað leitt til mjög slæms markaðsástands í heiminum í gegnum aldirnar — og má minnast á skortsölubannið sem var sett á í Hollandi 1610, skortsölubannið sem var sett á í Bretlandi 1722 og ég man líka eftir banni í Bandaríkjunum 1815–1850, ef mig misminnir ekki — þá er ljóst að mjög mikilvægt er að við höfum mjög gott regluverk utan um skortsölu.

Það sem vekur athygli mína er að verið er að auka gagnsæi með þessu frumvarpi. Það er verið að reyna að tryggja að ákveðnar upplýsingar liggi fyrir. En eins og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra eru mjög miklar takmarkanir á því hvenær skortsölusamningar þurfa að vera tilkynntir til Fjármálaeftirlitsins.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort þörf sé á öllum þessum viðmiðum. Er ekki betra að hafa það þannig að í hvert einasta skipti sem einhver tekur skortstöðu á markaði, í hvaða samhengi sem er, að honum sé skylt að tilkynna það? Nú gætu einhverjir sagt að það myndi skapa of mikið álag hjá Fjármálaeftirlitinu. En ég þykist vita að við eigum til svokallað internet í dag þar sem er hægt að búa til mjög hröð, einföld og sjálfvirk skráningarkerfi til að halda utan um allt upplýsingafarganið því tengdu. Væri það ekki líklegra til að leiða til góðs en að hafa einhver mörk sem við vitum að fólk mun hrúgast rétt fyrir neðan skilgreininguna á?