146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skortsala og skuldatryggingar.

386. mál
[15:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir og fagna því að hér sé loksins komið fram lagafrumvarp um skortsölu sem hefur það að markmiði að auka gagnsæi vissra fjármálagerninga og tryggja að eftirlitsaðilar á fjármálamarkaði hafi fullnægjandi valdheimildir til að bregðast við kerfisáhættu eða ógn við fjármálastöðugleika.

Þetta lagafrumvarp er byggt bæði á innleiðingu á EES-reglunum og vinnu nefndar sem stofnuð var af þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra 2. janúar 2014. Í frumvarpinu eru miklar skyldur lagðar á herðar Fjármálaeftirlitsins. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra um það, því að einhvers staðar í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þessar skyldur á Fjármálaeftirlitið í nýjum eftirlitsverkefnum kalli á hálft til eitt nýtt stöðugildi.

Ég velti því fyrir mér sem áhugamanneskja og talskona góðs eftirlits á fjármálamarkaði og líka í ljósi þeirra athugasemda sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haft uppi um stöðu Fjármálaeftirlitsins hér á landi, að eftirlitið sé ekki nógu sterkt, hvort hæstv. fjármálaráðherra deili þeirri skoðun með mér eða hvort hann hafi einhverja aðra skoðun á því að einmitt í tilefni þessa frumvarps þurfi að styrkja FME nokkuð betur en nú er, bæði vegna aukinna verkefna sem felast í þessu eina frumvarpi og líka vegna þeirra athugasemda sem komið hafa fram hjá AGS.