146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skortsala og skuldatryggingar.

386. mál
[15:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef hugsað mikið um Fjármálaeftirlitið og reyndar aðrar eftirlitsstofnanir hér á landi að undanförnu. Ég held að afskaplega mikilvægt sé að þær séu nægilega sterkar til að geta gegnt hlutverki sínu. Almennt talað er þeim falið að leysa úr verkefnum af ýmsu tagi. Mörg þeirra eru föst verkefni ef svo má segja, kannski tiltölulega einföld þótt þau séu tæknilega flókin, þ.e. einföld í þeim skilningi að þau koma upp aftur og aftur. Ég reikna með að þetta verkefni sé eitt þeirra og vegna umfangs skortsölu hér á landi að undanförnu sé það ekki mjög viðamikil viðbót sem kemur við verkefni Fjármálaeftirlitsins einmitt við þetta frumvarp, enda er það metið svo að þetta sé kannski um hálft til eitt stöðugildi. Ég hef hins vegar talað fyrir því að Fjármálaeftirlitið eigi að vera sterkt, það eigi að vera sjálfstætt. Það ber mikla ábyrgð. Það má aldrei endurtaka sig eins og menn skýldu sér á bak við fyrir hrun, að Fjármálaeftirlitið hefði ekki haft burði til þess að sinna hlutverki sínu og koma þó í veg fyrir þann hluta hrunsins sem hugsanlega hefði mátt forðast.