146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

skortsala og skuldatryggingar.

386. mál
[16:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig á ástæðunni fyrir spurningu hv. þingmanns. Það hafa vissulega komið upp dæmi á síðustu dögum þar sem við veltum því fyrir okkur hvers vegna við getum ekki refsað fyrir meint brot vegna þess að það er of langt síðan þau voru framin, þó svo að brotin hafi leitt til mjög alvarlegrar niðurstöðu á endanum og hafi verið, að manni virðist, blekkingar gegn ekki bara viðsemjanda, einhverjum venjulegum viðsemjanda, heldur íslenska ríkinu og öllum almenningi.

Ég reikna með að talan sjö vísi í almenna fyrningarreglu sem gildi. En ég get alveg tekið undir þá skoðun að þegar brot eru mjög alvarleg eigi að miða við lengri fyrningarfrest eðli brotanna samkvæmt.