146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands.

387. mál
[16:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagningu Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Á síðustu árum hefur verið stefnt að samræmingu lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Með lögum um breytingu á lögum um LSR, sem samþykkt voru á Alþingi í desember 2016, var ákveðið að A-deild og séreignardeild LSR skyldu starfa á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í því felst að lagaákvæði um A-deild LSR verða í meginatriðum felld brott 1. júní 2017. Samhliða verður samþykktum fyrir sjóðinn breytt og þar kveðið á um aldurstengda réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdur. Með þessu verður aldurstengd réttindaávinnsla fest í sessi hjá starfsmönnum ríkisins en almenni markaðurinn tók upp aldurstengda ávinnslu lífeyrisréttinda í desember 2004. Samhliða þessum breytingum hefur ríkið stefnt að því að einfalda og fækka þeim lífeyrissjóðum þar sem ríkissjóður ber ábyrgð að fullu eða hluta. Einn liður í þeirri einföldun og fækkun lífeyrissjóða er sú tillaga sem fram kemur í þessu frumvarpi um niðurlagningu Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga og Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands. Hér má vísa til frumvarps til laga um brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda sem til meðferðar er á Alþingi.

Með frumvarpinu er lagt til að lagaákvæði um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga verði felld brott þann 1. janúar 2018 og sjóðurinn sameinaður B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá og með þeim tíma. Jafnframt er með frumvarpinu lagt til að Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands verði lagður niður en samkvæmt lögum nr. 7/1987, um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands, ber ríkissjóður ábyrgð á öllum skuldbindingum sjóðsins og hefur LSR annast greiðslu lífeyris til sjóðfélaga síðan 1. júní 2010.

Það sem í frumvarpinu felst er að Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga og B-deild LSR verði að fullu sameinuð en með því næst fram mesta hagræðið við sameiningu sjóðanna, að eignir og skuldbindingar sjóðanna verði í einum sameiginlegum sjóði, að réttindi sjóðfélaga Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga verði flutt yfir í B-deild LSR og réttindakerfi samræmt, að sérákvæði sem gilda um réttindi hjúkrunarfræðinga, önnur en þau sem tíminn hefur gert óþörf, gildi áfram. Þetta á þó ekki við um aðild nýrra launagreiðenda og um heimild til að greiða í Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga án tillits til starfshlutfalls.

Það sem enn fremur felst í frumvarpinu er að réttindi verði reiknuð eins og þau hafi verið í einum sjóði allan tímann, að lokað verði fyrir aðild nýrra launagreiðenda að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga og reglur hans þannig lagaðar að reglum B-deildar LSR, að enginn sjóðfélagi Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga tapi réttindum, að réttindi verði metin með sama hætti og greitt hefði verið til eins sjóðs allan tímann, að bakábyrgð annarra launagreiðenda en ríkissjóðs fyrir skuldbindingum Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga verði felld út og að Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands verði lagður niður.

Að mörgu leyti eru Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga og B-deild LSR mjög svipaðir sjóðir og réttindakerfi þeirra byggt upp á sambærilegan hátt. Þá verða báðir sjóðirnir lokaðir fyrir nýjum sjóðfélögum og fjöldi greiðandi sjóðfélaga og lífeyrisþega mun þróast með svipuðum hætti í framtíðinni. Auk þess mun greiðandi sjóðfélögum Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga sífellt fækka eins og hjá B-deild LSR. Miðað við tryggingafræðilegar forsendur munu eignir sjóðanna, fjöldi greiðandi sjóðfélaga og fjöldi lífeyrisþega þróast með svipuðum hætti í framtíðinni.

Í september 2016 voru 2.300 hjúkrunarfræðingar á launaskrá. Þar af greiddu 91% iðgjald til A-deildar LSR, 8% greiddu til Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga og 1% greiddi annað. Virkir sjóðfélagar í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga voru 265 í fyrra og fer ört fækkandi. Við sameiningu réttinda úr B-deild LSR og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga í einn sjóð getur orðið til aukin skuldbinding vegna þeirra sjóðfélaga sem eiga réttindi í báðum sjóðum. Samkvæmt útreikningi tryggingastærðfræðings er þetta óverulegur hluti af skuldbindingum sjóðanna.

Við sameininguna þarf að huga að fyrirkomulagi á bakábyrgð ríkisins vegna Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga og jafnri ábyrgð launagreiðenda á skuldbindingum. Ábyrgð á skuldbindingum hvílir jafnt á öllum launagreiðendum í sjóðnum en eingöngu á ríkissjóði varðandi skuldbindingar B-deildar LSR. Hjá Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga er því hver launagreiðandi ábyrgur fyrir því að sjóðfélagar sem starfað hafa hjá þeim fái lífeyrisgreiðslur í samræmi við áunnin réttindi. Þegar Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga tæmist og hann á ekki lengur eignir til að standa undir greiðslu lífeyris taka launagreiðendur því yfir hlutverk sjóðsins við að standa undir lífeyrisgreiðslum. Ríkissjóður er síðan bakábyrgur reynist einhver launagreiðandi ófær um að standa undir þessari skuldbindingu. Ef bakábyrgð af öðrum launagreiðendum en ríkissjóði er aflétt væru þeir eftir sem áður ábyrgir fyrir skuldbindingum vegna lífeyrishækkana, óháð því hvernig farið yrði með ábyrgð á skuldbindingum.

Ríkissjóður er bakábyrgur vegna þeirra stofnana sem falla undir A-hluta ríkissjóðs. Þær stofnanir sem eru utan A-hluta ríkissjóðs eru margar hverjar fjármagnaðar af ríkissjóði að einhverju leyti eða voru fjármagnaðar af ríkissjóði á árum áður. Óvíst er hvort ríkissjóður beri hluta af þeirri skuldbindingu og ef svo hversu stóran hluta. Áfallin skuldbinding í árslok 2016 var 94 milljarðar, þar af ríkissjóður einn með 91,5 milljarða. Með frumvarpinu er lagt til að fella brott bakábyrgð annarra launagreiðenda en ríkissjóðs fyrir skuldbindingum Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga til samræmis við B-deild LSR. Með því að aflétta bakábyrgðinni tekur ríkissjóður á sig meiri skuldbindingu vegna bakábyrgðar en honum ber samkvæmt núgildandi lögum um sjóðinn.

Ýmsir aðrir aðilar eru nú með skuldbindingar upp á 1,2 milljarða. Rekstrarform þessara aðila er þess eðlis að óvissa og í sumum tilvikum ágreiningur er um hvort ríkissjóður beri hluta af þessari skuldbindingu. Þá er einnig óvissa um fjárhagsstöðu þessara aðila í framtíðinni.

Verði sjóðirnir ekki sameinaðir þarf að huga að bakábyrgðinni þar sem eignir Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga, aðrar en þær sem ríkissjóður hefur greitt aukalega til sjóðsins, munu verða uppurnar á næsta ári. Þegar það gerist munu launagreiðendur þurfa að standa skil á lífeyrisgreiðslum til sinna fyrrverandi starfsmanna vegna ábyrgðar á skuldbindingum. Misjöfn fjárhagsstaða þessara launagreiðenda eykur á óvissu um hlutdeild ríkissjóðs í skuldbindingum vegna bakábyrgðar. Ef reglur B-deildar LSR um bakábyrgð ríkisins á skuldbindingum verða teknar upp vegna skuldbindinga Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga getur það haft áhrif á skuldbindingar ríkissjóðs umfram það sem annars hefði verið.

Við sameiningu er ætlað að sparnaður verði um 37 millj. kr. á ári. Einskiptiskostnaður, sem hlýst af vinnu við sameininguna sjálfa, gæti numið um 5–6 millj. kr. og kemur til frádráttar frá sparnaðinum fyrsta árið. Um Eftirlaunasjóð Útvegsbanka Íslands er það að segja að hann er eignalaus. Ríkissjóður hefur um árabil greitt öll eftirlaun úr sjóðnum og kostnað við rekstur hans. Skuldbinding sjóðsins upp á 5,4 milljarða kr. verður því áfram með skuldbindingum ríkissjóðs eins og verið hefur.

Ég legg til, frú forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og efnahags- og viðskiptanefndar að þessari umræðu lokinni.