146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

vátryggingasamstæður.

400. mál
[16:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Því er til að svara að Fjármálaeftirlitið er fjármagnað með gjöldum á eftirlitsskylda aðila. Á hverju ári kemur fram tillaga frá samráðsnefnd Fjármálaeftirlitsins og þessara aðila sem síðan er borin undir Alþingi og lögum samkvæmt og stjórnarskrá, tel ég reyndar vera, verður Alþingi að samþykkja allar fjárveitingar og allar álögur sem lagðar eru á. Ég veit hins vegar ekki til þess að til séu dæmi um að ekki hafi verið fallist á slíka tillögu. Ég á von á því að það verði framhald þar á. Ég hef hins vegar sagt og tel mjög mikilvægt, bæði í þessu tilviki og tilviki annarra eftirlita, að þau sjálf, starfsemi þeirra, séu tekin út reglulega t.d. af alþjóðlegum aðilum, þannig að við vitum að það sé sambærilegt við það sem gerist annars staðar. Ég hef einnig, eins og hv. þingmaður, tekið eftir gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Ég held að nauðsynlegt sé að bregðast við því með samræðum við Fjármálaeftirlitið, vegna þess að það er hugsanlegt að verið sé að gagnrýna þætti sem ekki snúa beint að fjármögnun, en að því sem fjármögnun snýr er það atriði sem snýr beint að Alþingi. Ég held að fram til þessa hafi Alþingi sinnt því hlutverki býsna vel.