146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[16:37]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svarið. Það er alveg ljóst að þetta er nú ekki meginatriði frumvarpsins en mig langaði bara til að spyrja út í hvernig þessu væri háttað.

Það er annað sem ég vil líka taka fram í þessu og kannski nefna, að það sem hefur auðvitað verið að gerast líka varðandi hin alþjóðlegu lánsfyrirtæki er að ákveðin fyrirsjáanleiki hefur verið að aukast í starfsemi þeirra. Eitt af því sem ég tel að hafi gagnast verulega er að núna til að mynda birta þeir fyrir fram hvenær þeir ætli að veita viðkomandi ríki stöðumat. Ég held að það hafi aukið stöðugleika á þessum markaði þannig að markaðsaðilar geta betur séð það fyrir hvenær er von á slíku mati. Ég tel það jákvætt.

Mig langar líka í þessu öðru andsvari mínu að spyrja fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann telji að það þurfi kannski að auka eitthvað eftirlit með þessum fyrirtækjum hérlendis aukalega við þetta frumvarp?