146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er ástæða þessa sú að skjóta lagastoð undir þá framkvæmd sem hefur verið stunduð í lánasjóðnum án viðhlítandi lagastoðar, þ.e. að fjármagna og veita lán til aðfaranáms við háskóla fyrir þetta fólk. Það er engin nýbreytni í þessu önnur en sú að verið er að bregðast við tilmælum Ríkisendurskoðunar um að lánasjóðurinn megi lána og verði að gera það á grundvelli laga og lagastoðina hefur skort. Þetta hefur ekkert með reglugerðina frá árinu 2008, sem var endurskoðuð árið 2012, að gera sem varðar inntökuskilyrði í framhaldsskóla á Íslandi. Þetta tengist því máli ekki nokkurn skapaðan hlut.

Það sem hv. þingmaður vitnar hér til, varðandi það hvort þetta sé sá hópur sem ekki hafi fengið vist í framhaldsskólum landsins, þá tengist frumvarpið heldur ekki því og þeirri umræðu, því sem stundum hefur verið nefnt 25 ára reglan í umræðunni, hana er í raun hvergi að finna hér. Það er efni í aðra umræðu því að eini áskilnaðurinn þar sem eitthvað er að finna um 25 ára aldursmörk í regluverki ríkisins er í reglugerð frá árinu 2012 og er stafliður g þar sem 25 ára viðmiðið kemur fram.