146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

umgengni um nytjastofna sjávar og Fiskistofa.

412. mál
[17:10]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta yfirferð. Mig langar að spyrja nánar út í tvö atriði hér. Í 2. gr. kemur fram að ef ítrekað eru veruleg frávik á íshlutfalli í afla skips sem landar hjá vigtunarleyfishafa skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfið. Það kemur ekki fram í greinargerðinni hvað átt er við með verulegu fráviki í íshlutfalli og mér finnst pínulítið loðið hvað þetta þýðir, hvað þurfi í raun að gera til að missa vigtunarleyfið. Mig langaði líka að spyrja nánar út í það hvað gerist ef menn eru einu sinni búnir að missa vigtunarleyfið. Er eitthvert ferli sem hægt er að fara í gegnum ef menn bæta sig til að fá leyfið aftur?

Mér sýnist hæstv. ráðherra tímabundinn og ætla að skjóta hinni spurningunni minni inn. Þá þarf ég kannski ekkert að fara í annað andsvar. Mig langar að spyrja aðeins um kostnað við þetta, almennt við Fiskistofu, málefni hennar hafa verið töluvert í umræðu núna og hæstv. ráðherra hefur talað um að hún telji að flutningur Fiskistofu hafi ekki verið til góðs. Hér er talað um árlegan áætlaðan kostnað vegna upplýsingakerfis og sérfræðings um 6 millj. kr. og 1,2 millj. kr. stofnkostnað. Ég held að það sé ekki allt of rúmt um fjárhaginn hjá Fiskistofu og miðað við þær aðstæður sem stofnunin er í akkúrat núna, verandi á tveimur á stöðum, þá finnst mér þetta dálítið ódýrir sérfræðingar. Ef hann á að rúmast innan útgjaldarammans málefnasviðsins, eins og segir í fjármálaáætluninni og við hljótum að ræða það þegar kemur að henni, telur ráðherra að almennt þurfi meiri kostnað? Hún þarf ekki að svara mér varðandi þá tölu sem ég þuldi upp.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er þetta mjög mikilvægur málaflokkur og orðsporið er undir. Telur hún að almennt þurfi að veita meiri fjármuni til Fiskistofu?