146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

hlutafélög og einkahlutafélög.

410. mál
[17:20]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, rafræn fyrirtækjaskrá o.fl., á þskj. 541, 410. máli. Tilefni lagasetningarinnar er einföldun á lagaumhverfi hlutafélaga og einkahlutafélaga. Þannig miða breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu að því að einfalda lagaumhverfi vegna skráningar einkahlutafélaga. Lagðar eru til breytingar vegna undirbúnings rafrænnar fyrirtækjaskrár sem gera mun einstaklingum og lögaðilum kleift að skrá einkahlutafélag með rafrænum hætti. Í framhaldinu verður bætt við fleiri félagaformum. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar vegna breytinga sem gerðar voru á lögum um ársreikninga í júní 2016.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru tvíþættar. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar til einföldunar á lagaumhverfi hlutafélaga og einkahlutafélaga vegna undirbúnings rafrænnar fyrirtækjaskrár. Breytingin felur það í sér að hlutafélagaskrá geti ákveðið á hvaða formi tilkynningar ásamt fylgiskjölum skuli senda skránni og hvað einkahlutafélag varðar að málsmeðferðin skuli vera rafræn. Breytingin er liður í undirbúningi rafrænnar fyrirtækjaskrár sem gera mun einstaklingum og lögaðilum kleift að skrá einkahlutafélag og síðar einnig önnur félagaform með rafrænum hætti en undirbúningur rafrænu skrárinnar hófst á árinu 2013.

Gert er ráð fyrir að rafræn fyrirtækjaskrá verði tekin í notkun á síðari hluta ársins 2017 og þá fyrst um sinn eingöngu fyrir einkahlutafélög en í framhaldinu einnig fyrir hlutafélög sem og fleiri félagaform.

Hugmyndafræðin að baki rafrænni stjórnsýslu er að veita betri þjónustu við atvinnulífið, einfalda stofnun félaga og breyta skráningu félaga ásamt því að hraða allri þjónustu. Gert er ráð fyrir að rafræn fyrirtækjaskrá geti útbúið helstu stofnskjöl og tilkynningar um breytingar ásamt því að skrifað verði undir allar tilkynningar með rafrænum skilríkjum þegar þess gefst kostur. Kostir rafrænnar fyrirtækjaskrár eru talsverðir eins og nánar er rakið í greinargerð með frumvarpinu og ljóst er að rafræn fyrirtækjaskrá mun skila hagkvæmni og skilvirkni fyrir atvinnulífið sem og fyrir ríkisskattstjóra. Forsenda fyrir því að slík hagkvæmni og skilvirkni náist er sú að allir aðilar nýti sér rafræna fyrirtækjaskrá sem þess eiga kost. Á þessu stigi geta einstaklingar og lögaðilar sem búsettir eru erlendis ekki notað rafrænar undirskriftir og geta þar af leiðandi ekki nýtt sér rafræna fyrirtækjaskrá.

Einnig er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að tilkynningar og gögn sem skylt er að senda hlutafélagaskrá skuli vera á íslensku. Er þetta eingöngu til skýringar á framkvæmd sem nú þegar er við lýði í samræmi við íslenska málstefnu.

Í öðru lagi eru í frumvarpinu lagðar til breytingar í framhaldi af breytingum sem gerðar voru á lögum um ársreikninga í júní 2016. Með breytingum á lögum um ársreikninga var örfélögum, eins og þau eru skilgreind í lögunum, sem nýta sér heimild 7. mgr. 3. gr. þeirra laga heimilað að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit byggð á skattframtali félagsins sem telst fullgildur ársreikningur samkvæmt lögum um ársreikninga til framlagningar á aðalfundi. Ekki er skylt að endurskoðandi eða skoðunarmaður yfirfari slík reikningsyfirlit. Teljast slík rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit gefa glögga mynd af afkomu og efnahag félagsins í skilningi 20. töluliðar 2. gr. laga um ársreikninga.

Í samræmi við framangreinda breytingu á lögum um ársreikninga eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þannig að á aðalfundi hlutafélaga og einkahlutafélaga sem teljast örfélög í skilningi laga um ársreikninga þurfi ekki að leggja fram skýrslu endurskoðenda eða skoðunarmanna ef félögin nýta sér heimild 7. mgr. 3. gr. ársreikningalaga til að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit byggð á skattframtali félagsins og skila til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar.

Verði frumvarp þetta að lögum mun það einfalda tiltekið atriði við stofnun, starfsemi og skráningu einkahlutafélaga fyrst um sinn og síðar hlutafélaga. Breytingarnar hafa áhrif á samskipti hlutafélagaskrár við stofnendur og stjórnendur slíkra félaga. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Frú forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem miðar að því að einfalda lagaumhverfi hlutafélaga og einkahlutafélaga. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.