146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

411. mál
[17:32]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæta yfirferð. Ég get ekki staðist mátið að þýfga hann um ákveðin svör, það kitlar egóið að geta verið með ráðherra hér á kantinum að svara spurningum sem manni detta í hug. Mig langar að spyrja í fyrra andsvari mínu aðeins út í fjármálin. Hæstv. ráðherra kom inn á það í máli sínu, eins og kemur fram í greinargerðinni, að þessir þrír fimmtu hlutar gistináttaskatts sem hingað til hafa runnið inn í sjóðinn muni ekki gera það heldur fari þetta inn á fjárlög og inn í fjármálaáætlun, í drög að henni. Það er gert ráð fyrir 776 millj. kr. á ári næstu fimm árin. Svo segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir því að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð svo að nokkru nemi.“

Ég hélt að þetta frumvarp, sem er að mörgu leyti gott og ég lýsi mig hrifinn af mörgu í efni þess, gengi út á það að staðir í opinberri myndu sjálfir fara inn á fjárlög, er það ekki? Þeir voru áður að keppa um akkúrat þessa summu hér inni en fari þá inn á fjárlögin, ekki satt? Við horfum þá í raun og veru á tvö kerfi fjárveitinga til uppbyggingar á ferðamannastöðum í staðinn fyrir eitt.

Þýðir það ekki í raun útgjaldaaukningu? Sem er vel, ég er ekki að kvarta yfir því ef það á að setja aukna fjármuni í þessi mál. Satt að segja varð ég fyrir hálfgerðum vonbrigðum þegar ég las þessa setningu í greinargerðinni um að breytingin myndi ekki hafa í för með sér aukin útgjöld. Kannski þá að sömu fjármunir fari til sjóðsins en svo fari til uppbyggingar ferðamannastaða í eigu hins opinbera á öðrum stað í fjármálakerfinu aðrar upphæðir. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort þetta þýði ekki vonandi (Forseti hringir.) að það verði auknir fjármunir í uppbygginguna.