146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

411. mál
[17:47]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að bregðast örstutt við því sem hv. þingmaður kom inn á. Ég get alveg tekið undir það að nú er verkefnið að koma landsáætlun á fót. Þegar þetta fór fyrst af stað var náttúrupassinn þar við hliðina. Í rauninni átti náttúrupassinn þá að fjármagna landsáætlunina. Svo fór landsáætlunin, lögin með langa nafnið, í gegn en náttúrupassinn ekki. Þess vegna er verkefnið að tryggja fjármagn í áætlunin, af því að hún er er mjög vel unnin og skýr. Þar birtist heildarsýn sem er mjög gott að sé komin.

Það er rétt að það hefur reynst að hluta til erfitt að koma fjármagninu út, þ.e. sjóðurinn hefur fengið umsóknir langt umfram það fjármagn sem hefur fengist í hann. Þegar við höfum síðan úthlutað til ákveðinna verkefna hefur af ýmsum ástæðum ekki tekist að klára verkefnin. Þannig hafa fjármunir setið eftir í sjóðnum, sem er líka bagalegt.

Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á almannaréttinn. Það er auðvitað risastórt mál. Það er nánast sama um hvað maður er að ræða og hverju maður er að velta fyrir sér, maður staldrar alltaf við almannaréttinn á endanum. Það er ýmis vinna í gangi hvað hann varðar, en við þurfum að fara að ræða það af alvöru og taka einhverjar ákvarðanir í því.

Það er góð ábending sem hv. þingmaður kom með varðandi mögulegt hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um að ef vilji er hjá eiganda t.d. til að hleypa ferðamönnum í gegnum land sitt fái hann fjármagn til þess að byggja það upp þannig að ekki sé gengið á það um of eða það skemmt. Það er sömuleiðis áhugaverð ábending um að sveitarfélögin og mótframlagið séu í hlutfalli við stærð sveitarfélaganna.

Varðandi gjaldtöku á einkalönd hugsum við það þannig að með þessu breytta fyrirkomulagi í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða séu auknir fjármunir fyrir einkaaðila. Það ætti að draga úr líkum á því að eigendur hefji gjaldtöku þegar þeir eru mögulega að því gegn eigin vilja, ef þeir þannig séð telja sig neyðast til að rukka. Gjaldtökuumræðan er síðan annað og stórt mál. En ef landeigendur þurfa að byggja eitthvað upp til að hleypa ferðamönnum inn á svæði og vilja ekki endilega taka fyrir það gjald þá eru alla vega komnir meiri fjármunir í sjóðinn og hlutverk hans er þá meira fyrir einkaaðilana en verið hefur.