146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[18:16]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Það virðist við fyrstu lesningu vera margt gott í þessari stefnu. Ég fagna því að efla eigi upplýsingagjöf til almennings, sérstaklega hvað varðar aukaverkanir á lyfjum og áhrif fjöllyfjanotkunar, og að efla eigi þátt notenda lyfja í eigin meðferð og gera með því sjúklinga ábyrgari fyrir eigin heilsu. Það eru mjög flott markmið. Ég fagna því einnig að bregðast eigi við aukningu lyfjaónæmis vegna notkunar sýklalyfja í búfénaði vegna þess að ofnotkun sýklalyfja í dýrahaldi er gríðarlegt vandamál í heiminum öllum sem ógnar heilsu fólks og notkun sýklalyfja ber að halda í algjöru lágmarki.

Ég tek sérstaklega undir þau áform ráðherra að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja þar sem notkun er umtalsvert meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta er svo sannarlega mikilvægt verkefni.

Það sem mér finnst í fljótu bragði vanta í þessa stefnu er tvennt. Ég sakna þess í fyrsta lagi að talað sé um forvarnir til að minnka lyfjanotkun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar kemur fram, með leyfi forseta:

„Við stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda verði gætt að áhrifum á heilsu og líðan íbúa. Dregið skal til framtíðar úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu.“

Mér þætti vænt um að heyra útskýringar ráðherra á því hvers vegna þessi sjónarmið eiga ekki heima í lyfjastefnu. Mögulega eiga þau heima einhvers staðar annars staðar, ég veit það ekki, en mér finnst þau alveg eiga heima þarna.

Í öðru lagi kemur einnig fram í stjórnarsáttmála að stefnt skuli að því að minnka greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðisþjónustu. Í umræddri lyfjastefnu er talað um að efla kostnaðarvitund heilbrigðisstarfsfólks og almennings en hvergi er stefnt að því að minnka greiðslubyrði þeirra sem eru veikir og þurfa lífsnauðsynlega á lyfjum að halda. Þetta er frekar furðulegt í ljósi þess sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum en einnig að meginmarkmið lyfjastefnunnar sjálfrar er að tryggja aðgengi að lyfjum. Í greinargerð kemur fram, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisyfirvöld þurfa, í góðu samstarfi við lyfjafyrirtæki, að tryggja aðgengi að nauðsynlegum lyfjum og nauðsynlegum upplýsingum um lyf. Lyfjastofnun þarf áfram, í samvinnu við hagsmunaaðila, að leita allra leiða til að tryggja að nauðsynleg lyf séu ávallt til í landinu.“

Þetta er allt gott og blessað, að tryggja að lyf séu ávallt til í landinu, en ber okkur ekki einnig að tryggja að þeir sem þurfa á lyfjunum að halda hafi fjárhagslega getu til þess að nálgast þau?

Ég hlakka til að rýna betur í stefnuna innan velferðarnefndar og vona að sjónarmið mín fái góðar undirtektir þar. Það er ljóst að með markvissum aðgerðum til þess að bæta lýðheilsu með forvörnum væri alveg hægt að minnka lyfjaþörf og þá myndi kostnaður minnka. Þá ætti að vera lítið mál að koma betur til móts fjárhagslega við þá sem þurfa lífsnauðsynlega á lyfjum að halda.

Það er komin upp alvarleg staða og við sem þjóð erum í raun komin á mjög hálan ís þegar við erum komin á þann stað að setja fólk á hausinn þegar það þarf að glíma við alvarleg veikindi og þarf mest á stuðningi samfélagsins að halda. En þetta er raunin, þetta er staðan, og ég tel það mjög alvarlegt ef ekki á að taka á þessu í lyfjastefnu til næstu fimm ára, fyrir utan forvarnagildi þess að steypa ekki alvarlega veiku fólki í fjárhagserfiðleika með tilheyrandi kvíða og álagi sem hreinlega hindrar bata. Og hvað gerist í kjölfarið? Endar fólk mögulega á örorkubótum sökum þess að það fær ekki tækifæri til að ná heilsu? Hvað kostar það samfélagið? Þetta eru keðjuverkandi áhrif og við þurfum að nálgast þennan málaflokk á miklu heildrænni hátt. Það sem virðist vera sparnaður í einum reit í excel-skjalinu endar bara sem tilfærsla á kostnaði í einhverjum öðrum reit í skjalinu. Maður spyr sig hvort það sé skilvirk leið til þess að nálgast þessi vandamál.

Ég hlakka til að rýna betur í þetta í nefndinni. Ég veit að þegar við ræðum um hluti sem þarf að laga og efla í samfélaginu er alltaf talað um að það sé einhver kostnaður á bak við það og það séu ekki til peningar til að gera það, en málið er að það er alltaf hægt að skapa sparnað. Ef við horfum á þetta á heildrænni hátt þá getum við fundið út hvar við getum sparað og hvernig við getum haft efni á öðrum hlutum.